Saga - 1993, Blaðsíða 26
24
GUÐMUNDUR HALFDANARSON
Slík höfuðborg var ekki síst til þess fallinn, sagði Jón ennfremur, að
þjóna sem „samgöngustaður milli Islands og útlanda, og vort helsta
meðal til að geta fylgt tíðinni og öðrum siðuðum þjóðum ,..".46
Hugmyndir af þessu tæi voru eitur í beinum margra landa Jóns, og
þá ekkert síður þeirra sem annars viðurkenndu forystu hans í sjálf-
stæðisbaráttunni.47 Reykjavík yrði fremur miðstöð spillingar en þjóð-
lífs, álitu menn, ekki síst þar sem bæinn skorti það samband við sögu
þjóðarinnar og menningu sem einkenndi lífið í sveitunum.48 Andúðin
á samþjöppun valdsins og eflingu Reykjavíkur sem andlegrar mið-
stöðvar á íslandi varð þó aldrei að skipulegri hreyfingu, heldur kom
fyrst og fremst fram sem almenn óánægja með eflingu þéttbýlis og
sjávarútvegs á kostnað sveita og landbúnaðar. Siðspilling þurrabúð-
armanna var alræmd í þjóðmálaumræðu 19. aldar og til dæmis var
nálægð Lærða skólans við verslunarbúðir og sjómenn álitin heldur
óholl fyrir upprennandi embættismannastétt á Islandi. Skólapiltarnir
„hafa að vísu að sumu leyti sigrað Reykjavík, en Reykjavík hefir líka
að sumu leyti sigrað þá", sagði um þetta í grein í Akureyrarblaðinu
Norðcmfara árið 1872. „Piltar eru almennt, því fer betur, íslenskir í hug
og hjarta," hélt höfundur áfram, „en þeir hafa útvortis fengið á sig
útlent snið og koma öðruvísi fram í sveitalífinu en piltar í fyrri tíð frá
Bessastöðum. Því verður nefnilega ekki neitað, að piltar eru orðnir
hneigðari fyrir tilhald í klæðaburði og öllum aðbúnaði, fyrir hóglífi
og nautn áfengra drykkja og frásneiddari líkamlegri áreynslu, og er
það því meinlegra fyrir búskap þeirra eptirleiðis ...". Lausnin á vand-
anum, fannst þessum greinarhöfundi, var að flytja skólann frá Reykja-
vík og þá væntanlega til hinna hreinlyndu sveita.49
í bakgrunni deilna um hlutverk og eðli Reykjavíkur voru gagnstæð
sjónarmið um stöðu og gerð ríkisvalds á íslandi. Annars vegar voru
hugmyndir um miðstýrt ríkisvald, sem skyldi stuðla að nýsköpun í
íslensku samfélagi og tryggja einstaklingum aukið frelsi í viðskiptum
46 Jón Sigurðsson, „Um alþíng á íslandi," Ný félagsrit 2 (1842), bls. 126-127.
47 Sjá aftanmálsgrein.
48 Þessi afstaða til Reykjavíkur kemur víða fram í heimildum frá 19. öld og nægir þar
að benda á Pilt og stúlku Jóns Thoroddsens.
49 „Um Reykjavíkurskóla," Norðanfari 21. des. 1872.
50 Samhengi viðskiptafrelsis og framfara var snar þáttur í pólitískum boðskap Jóns
Sigurðssonar, sbr. kver hans Util fiskibók, með uppdráttum og útskýringum handa
fiskimönnum á íslandi (Kaupmannahöfn: Dómsmálastjórnin, 1859), bls. 3-10.