Saga - 1993, Blaðsíða 234
232
RITFREGNIR
lesa þetta mikla verk spjaldanna á milli, til þess er það allt of stórt. Megin-
gildi þess er í því fólgið að það má auðveldlega nota sem handbók, fletta upp
málum og atburðum, lesa sér til og leita síðan áfram eftir tilvísunum og
heimildum. Þannig hygg ég að flestir muni nota verkið og vafalaust »munu
margir, kennarar jafnt sem nemendur, nota það við leit að heppilegum rit-
gerðarefnum, stórum sem smáum.
Eins og áður var getið er það aðall þessa verks, hve traust frásögnin er.
Margir kaflar eru stórfróðlegir, vel skrifaðir og skemmtilegir aflestrar. Nefni
ég þar sérstaklega þá sem fjalla um störf íslendinga í tengslum við dönsku
utanríkisþjónustuna á millistríðsárunum, kaflana um stríðsárin, varnarmálin
á fyrstu áratugunum eftir síðari heimsstyrjöld, landhelgismál og „Loftleiða-
málið". Að því er landhelgismál snertir verður því þó ekki neitað að þar
sakna ég frásagnar af „ömmuskeytunum" svonefndu á millistríðsárunum, en
þau mál komu til kasta utanríkisþjónustunnar og snertu einnig ræðismenn
erlendra ríkja hér.
Allur frágangur þessa verks er með ágætum, með einni undatekningu þó.
Af einhverri ástæðu hefur sá kostur verið valinn að raða öllum tilvitnunum í
sérstaka skrá aftast í 3. bindi. Þetta er afar óheppilegt í svo stóru verki og
hlýtur að valda notendum óþægindum. Til þess að hafa full not af 1. og 2.
bindi verða þeir sífellt að hafa 3. bindi við höndina og síðan að fletta fram og
aftur á milli binda. Þetta er tímafrekt og getur auk þess komið sér illa þegar
unnið er á söfnum, þar sem ekki er víst að öll bindin séu alltaf fáanleg á sama
tíma. Að jafnaði fer best á því að hafa tilvitnanir neðanmáls og í svo stóru
verki sem þessu er það nauðsynlegt.
Rit Péturs J. Thorsteinssonar er mikið eljuverk, samið af mikilli þekkingu,
nákvæmni og samviskusemi og á vafalaust eftir að reynast íslenskum fræði-
mönnum notadrjúgt á komandi árum. Skal höfundi að lokum óskað til ham-
ingju með vel heppnað verk og sú ósk borin fram að hann Iáti ekki hér staðar
numið en haldi áfram að miðla okkur af þekkingu sinni á íslenskum utanrík-
ismálum.
Jón Þ. Þór
Inga Huld Hákonardóttir: FJARRI HLÝJU HJÓNASÆNG-
UR. ÖÐRUVÍSI ÍSLANDSSAGA. Kápa, útlit og myndrit-
stjórn: Alda Lóa Leifsdóttir. Ljósmyndir: Guðmundur Ing-
ólfsson. Mál og menning. Reykjavík 1992. 320 bls. Skrár
um tilvísanir, heimildir og ljósmyndir.
Bókin Fjarri hlýju hjónasængur kom mér nokkuð á óvart; um hríð hefur verið
kunnugt meðal sagnfræðinga að höfundur ynni að rannsóknum á stóradómi
frá 16. öld og bjóst ég við að bókin væri afrakstur þeirra rannsókna en hún er
allt öðruvísi saga, öll á lengdina en ekki kafað djúpt í stóradóm. Bókin lýsir