Saga - 1993, Blaðsíða 174
172
GUÐMUNDUR HÁLFDANARSON
er um persónur sem sett hafa svip á sögu 20. aldar. Ekki örlar t.d. að
ráði á gagnrýni á söguhetjurnar í bókum Vilhjálms Hjálmarssonar um
Eystein Jónsson, eða í ævisögu Ólafs Thors eftir Matthías Johannessen,
enda stóðu sögupersónurnar báðar höfundunum nærri.4 Það er því
fagnaðarefni að fjölbreytni ævisagna stjórnmálamanna virðist fara vax-
andi, a.m.k. ef dæma má af þeim sögum sem hér eru til umfjöllunar.
Tvær þeirra, eða sögur þeirra Ásgeirs Ásgeirssonar og Hermanns Jón-
assonar, bera öll svipmót hreinræktaðra helgisagna, þar sem heim-
ildarýni og söguleg greining er lítið áberandi. Hvorug gerir tilraun til
að uppfylla vinnureglur sagnfræðinga og verða því tæpast dæmdar
út frá fræðilegum forsendum. Hinar tvær eru hins vegar greinilega
skrifaðar sem sagnfræðirit og hljóta því að dæmast sem slík.
Ásgeir Ásgeirsson og Hermann Jónasson
Bækurnar um þá Ásgeir Ásgeirsson eftir Gylfa Gröndal og Hermann
Jónasson eftir Indriða G. Þorsteinsson eru báðar skrifaðar af fölskva-
lausri hrifni af starfi stjórnmálamannanna tveggja og mannkostum -
„Enginn dró kjark og áræði Hermanns Jónassonar í efa", „Hermann
var glöggur og vel gerður", segir Indriði (Ættjörð mín kæra, bls. 81 og
125); „Satt að segja var Ásgeir snjallasti maður, sem ég hef nokkurn
tíma kynnst, við að vinna fólk til fylgis við sig, og hann talaði aldrei
illa um nokkurn mann", hefur Gylfi eftir Hannesi Pálssyni á Undir-
felli (Ásgeir Ásgeirsson, bls. 234). Hljómar texti þessara ævisagna því
oft eins og langar minningargreinar, þar sem hvergi er dregið undan í
lofgerð um hina látnu en allir lestir látnir kyrrir liggja.
Mannlýsingar af þessu tæi eru tæpast sannfærandi, a.m.k. er erfitt
að ráða af bókunum hvers vegna jafnmikill styr stóð um þá í stjórn-
málunum og raun ber vitni. Ekki kemur á óvart að bækurnar spyrja
aldrei erfiðra spurninga um atferli söguhetja sinna og kjósa oft fremur
að horfa fram hjá vandamálunum en að fjalla um þau. Það verður þó
4 Vilhjálmur Hjálmarsson, Eysteinn íeldltiiu stjámmálanna (Reykjavík: Vaka, án árt.),
Eysteinn í baráttu og starfi (Reykjavík: Vaka, 1984) og Eysteinn í stormi og stillu
(Reykjavík: Vaka, 1985); Matthías Johannessen, Ólafur Thors. Ævi og störf 2 bd.
(Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1981).