Saga - 1993, Blaðsíða 74
72
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
laust, að stofna sterkt ríki á miðjum Ítalíuskaga og reka útlendinga úr
landi. Machiavelli dáðist að Rómaveldi. Það hafði smám saman orðið
til úr lítilli borg á miðjum Ítalíuskaga. Var Flórens ef til vill hin nýja
Róm? Machiavelli var að vísu eindreginn lýðsinni, en reiðubúinn til
að sætta sig við einhvers konar furstadæmi, mætti það verða til þess
að hrekja útlendinga frá Italíu. Lýkur Furstanum á „Hvöt til frelsunar
Italíu úr greipum barbaranna", sem samin er af mikilli mælsku. Eng-
um fursta tækist þó að hrinda fram svo mikilfenglegu ætlunarverki,
taldi Machiavelli, nema hann kynni lögmál valdabaráttunnar, og þau
gæti hann lært af bók sinni. Aðrir hefðu skrifað um það, hvernig hlut-
irnir ættu að vera, bók Machiavellis sjálfs væri hins vegar um það,
hvernig þeir væru. Furstinn mátti ekki skirrast við neitt að sögn
Machiavellis. Síst mátti kristilegt siðferði, sem Machiavelli taldi sið-
ferði kvenna, þræla og veikgeðja manna,12 verða honum fjötur um fót.
Hann yrði að mæla blítt, en hyggja flátt, þegar svo bæri undir, og um-
fram allt yrði hann að tortíma öllum hugsanlegum keppinautum sín-
um um völd. Hann yrði að hafa til að bera manndóm, virtú, en það
hugtak Machiavellis er allt annars eðlis en náungakærleikur, guð-
hræðsla, auðmýkt og aðrar kristilegar dygðir. Þetta er heiðið hugtak
og merking þess nánast: skilvirkur, fullkominn og heill í því, sem
maður tekur sér fyrir hendur.13 Gæfan væri duttlungafull eins og
kona, sagði Machiavelli; til þess að fá hennar notið þyrfti manndóm,
karlmennsku, dug.
Til er málverk af Machiavelli eftir Santi di Tito, og er það geymt í
Vecchiohöll í Flórens.14 Höfundur Furstans er þar Ijóslifandi kominn,
grannleitur, fölur og snöggklipptur, andlitið mjótt niður, eyrun odd-
hvöss og útstæð, kímniglampi í fránum augum, þunnur munnurinn
12 Sjá sérstaklega Athugasemdir við Rómverja sögu Livíusar (hér eftir The Discourses, rit-
stj. Bernard Crick, Penguin Books, Harmondsworth, Middlesex, 1970), II. bók, 2.
kafla. Machiavelli átti þar sitt hvað sameiginlegt með Nietzsche.
13 Það er þess vegna að sumu leyti líkt gríska hugtakinu arete, sem stundum hefur
eins og virtu verið þýtt dygð á íslensku. En það er ekki dygð í þröngri merkingu,
heldur kostur á einhverju. Beittur hnífur er til dæmis góður sem hnífur; laginn
þjófur er góður eða skilvirkur sem þjófur. Orðið dugur, sem er samstofna dygð,
nær merkingunni betur á íslensku.
14 Prýðir það kápu íslenskrar útgáfu Furstans. Af einhverjum ástæðum er þess hvergi
getið í íslensku útgáfunni, hvaðan kápumyndin er tekin, aðeins sagt, að auglýs-
ingastofan Teikn hafi hannað kápuna.