Saga - 1993, Blaðsíða 104
102
HANNES HOLMSTEINN GISSURARSON
gjörnum í stjórnmálum? Hafa þeir þá ekki skipt um hest í miðri á?
Önnur ástæða til þess, að skynsamlegt er að gera ráð fyrir vondum
valdsmönnum, er sú, að hagsmunir manna rekast á og þeir þurfa því
að tryggja sig hver gegn öðrum. Lánardrottnar og skuldunautar hafa
sömu hagsmuni um sumt, og því takast með þeim samningar; lánar-
drottnar græða á að veita lán, skuldunautar á að taka þau. En þessir
hópar hafa ólíka hagsmuni um annað: Auðvitað vildu lánardrottnar
gjarnan fá hærri vexti og skuldunautar sleppa við endurgreiðslur.
Samningar eru einmitt til þess að binda samskipti þessara tveggja
hópa við svið, þar sem hagsmunir fara saman. Slíkir samningar hvíla
í senn á trausti og tortryggni. Lánardrottnar treysta skuldunautum
sínum fyrir fé, en tryggja sig gegn því, að þeir reynist ekki traustsins
verðir, með skriflegum skuldbindingum, veðum og öðru. Með öðrum
orðum er tortryggni nytsamleg vinnutilgáta, þar sem hagsmunir eru
ólíkir. Hagsmunaárekstrar eru raunar enn tilfinnanlegri í stjórnmál-
um en viðskiptum.71 Vegna hagvaxtar er eins gróði ekki alltaf annars
tap í viðskiptum; en í stjórnmálum missir einn völd, um leið og annar
fær. Einn og aðeins einn maður getur verið forsætisráðherra íslands
hverju sinni, en því eru engin föst takmörk sett, hversu margir menn
geta eignast eitt hundrað milljónir hver. (Þetta sér Machiavelli, er
hann segir, eins og fyrr er nefnt, að „sá, sem eflir veldi einhvers
annars, er þar með að veikja sjálfan sig".)
Þriðja ástæðan til að tortryggja valdsmenn sérstaklega, jafnvel þótt
þeir séu lýðræðislega kjörnir, er, að enginn sérstakur stjórnmálavandi
hlýst af góðum valdsmönnum: Sá kostur er því ekki úrlausnarefni í
sama skilningi og hinn, að valdsmenn séu vondir. Annað er fagnað-
arefni, hitt vandi. Menn tryggja sig gegn vondum valdsmönnum, en
skeyta ekki um hina góðu, því að vandalaust er að lifa við stjórn
þeirra. Þetta sjónarmið má orða svo: Menn leita góðra leikreglna
vegna vondra manna, en séu menn góðir, þá er leitin að góðum leik-
reglum ekki eins brýn. Skynsamlegra er að miða við versta kost en
hinn besta, þegar litið er til óvissrar framtíðar. Ella taka menn allt of
mikla áhættu. Þetta sést af skipasmíðum. Nýtt skip er smíðað með
tilliti til þess, að það standi af sér verstu veðrin, ekki aðeins hin bestu.
Sjálfur segir Machiavelli einmitt: „Það er algengur veikleiki mann-
71 Á máli leikjafræðinga má segja, að stjómmál séu oft „zero-sum-game", en við-
skipti til gagnkvæms hags „positive-sum-game".