Saga - 1993, Blaðsíða 108
106
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
stjórnvöldum reglur og myndum jafnvægi og gagnkvæmt eftirlit í
stjórnmálum, þá gerum við ráð fyrir skálkum, er stefni ekki að öðru
en eigin hag,"75 sagði Hume, en benti um leið á það, hversu einkenni-
legt kynni að virðast, að regla skyldi gilda í stjórnmálum, sem stæðist
ekki í mannlífinu sjálfu. Og John Stuart Mill minnti á það í Frelsinu
árið 1859, að hagsmunir valdhafa eru ekki alltaf hinir sömu og lýðs-
ins. „Sú „þjóð", sem fer með valdið, er ekki ætíð sama þjóðin og fyrir
því verður," sagði hann. „Því ríður engu síður á, að vald ríkisstjórnar
yfir þegnum sínum sé takmarkað, þótt almenningur, eða öllu heldur
öflugasti hluti hans, kalli yfirvöld til ábyrgðar á tilteknum fresti."76
Fleira er kaldhæðnislegt í Furstanum en virðist við fyrstu sýn.
Machiavelli hugðist gefa forystumönnum í stjórnmálum góð ráð um
það, hvernig þeir skyldu tefla til sigurs, en tapaði sjálfur sínum leik."
Sá maður, sem hann taldi, að þeir ættu helst að taka sér til fyrirmynd-
ar, Cesare Borgia, réð aðeins yfir smáskika á Italíu og hrökklaðist frá
völdum eftir skamma hríð. Þjóðhetjur þær, sem þessi mikli raunsæis-
sinni nefnir, Móses, Kýros, Þeseifur og Rómúlus, voru þjóðsagna-
verur, ekki raunverulegir einstaklingar. Kaldhæðnislegast er þó,
hvaða ályktanir má draga af þessari bók. Þar sem við stöndum í miðj-
um manngrúanum niðri á torginu og horfum upp í hallargluggann,
getum við aðeins gefið lýðnum eitt ráð, og það er að vantreysta þeim
fulltrúum sínum, sem hann hefur kosið til að búa um stund í höllinni
og fara með ríkisvaldið. Setja þarf hallarbúum, hverjir sem þeir eru,
fastar skorður, ekki aðeins til að kosningar geti farið fram eðlilega á
nokkurra ára fresti, heldur líka til þess að fólk fái nægilega stóra
afgirta reiti til að rækta á eigin ábyrgð og verja gegn ágengum stjórn-
völdum. Kenning Machiavellis leiðir því beint til kröfu Lockes og
annarra frjálslyndra hugsuða seytjándu og átjándu aldar um almenn
mannréttindi og stjórnarskrárbundnar skorður við valdinu. Örlögin
glettust bersýnilega við Machiavelli liðinn ekki síður en lifandi. Mað-
urinn, sem lofsöng valdið, kenndi öðrum að varast það.78
75 David Hume: „Of the Independency of Parliament" í Essnys, Moral, Polilical, nnd
Literary, ritstj. Eugene F. Miller (Liberty Classics, Indianapolis 1987), 42. bls.
76 John Stuart Mill: Frelsið (Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1970), 37. bls.
77 „Þeir, sem geta, gera; þeir, sem ekki geta, kenna," sagði George Bernard Shaw.
78 Þessi ritgerð var samin, á meðan höfundur var Fullbright-fræðimaður í Hoover-
stofnuninni í Stanford-háskóla í Kaliforníu.