Uppeldi og menntun - 01.01.2010, Side 55
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 19(1–2)/2010 55
BörKUr HanSen, ÓlafUr H. JÓHannSSon og SteinUnn Helga lárUSdÓttir
heimila og skóla og verkaskiptingu kennara að fengnum tillögum skólastjóra. Stjórnin
staðfestir fjárhagsáætlun skólans að fengnum tillögum skólastjóra, ákvarðar fjölda
kennslustunda fyrir hvern árgang, gefur sveitarstjórn umsögn um val á stjórnendum
og kennurum og umsögn um námskrá skólans (Helgesen, 2000). Gert er ráð fyrir að
foreldrar bjóði sig fram til þátttöku í stjórn skóla en þátttaka foreldra er dræm og oft
veljast foreldrar á staðnum þar sem kosning fer fram (Helgesen, 2000).
Megineinkenni á stjórnun skóla í Danmörku er því að þar skipa fulltrúar foreldra
meirihluta í stjórn skólans þótt aðrir þeir sem beinna hagsmuna eiga að gæta eigi
einnig sína fulltrúa.
Noregur
Í Noregi er grunnskólinn rekinn af sveitarfélögum í samræmi við ákvæði laga (Lov
om grunnskolen og den vidaregåande opplæringa, 2009). Ríkið setur skólum nám-
skrár en sveitarfélagið ber ábyrgð á framkvæmd á rekstri grunnskóla og fær til þess
fjárhagsstuðning frá ríkinu sem er í formi rammafjárveitinga. Hverjum grunnskóla
stjórnar skólastjóri.
Við hvern grunnskóla skal starfa samráðshópur sem hefur rétt til að tjá sig um
öll málefni sem varða skólann. Hópurinn er skipaður fulltrúum kennara og annarra
starfsmanna, nemenda, foreldra og sveitarstjórnar. Skólastjóri er ritari hópsins en getur
einnig verið fulltrúi sveitarstjórnar sé það talið æskilegt. Samráðshópurinn hefur
áhrifavald en ekki ákvörðunarvald. Sveitarstjórn getur þó, ef hún svo kýs, framselt
hluta af verkefnum sínum til samráðshópsins. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum getur
sveitarstjórn falið samráðshópnum stjórn skólans (Helgesen, 2000).
Í Noregi einkennist dreifstýring í skólamálum af því að ríkið hefur veitt sveitar-
félögum sjálfstjórn um fjármál og rekstur í verulegum mæli. Ákvarðanir um inntak
náms eru aftur á móti nánast alfarið á ábyrgð ríkisins. Sveitarfélagið deilir ábyrgð á
ýmsum málaflokkum út til hverfastjórna (Helgesen, 2000).
Svíþjóð
Sveitarfélög í Svíþjóð annast rekstur grunnskólans. Ríkið setur námskrár og innan
þeirra er skólum veitt tiltölulega mikið svigrúm til ákvarðana, t.d. um valgreinar og
áherslur skólanna (Skollag nr. 1100/1985). Með lagabreytingu árið 1992 var eitt af
markmiðunum að veita börnum og foreldrum sem mest frelsi til að velja skóla, annað-
hvort einn af þeim skólum sem sveitarfélagið rekur eða „frjálsan skóla“ (s. fristående
skola). Með þessari tilhögun er litið á foreldra sem neytendur þjónustu sveitarfélagsins
og er gert ráð fyrir að áhugi foreldra á skólagöngu barnanna aukist við það að geta
valið skóla. Fjármögnun grunnskólans er með þeim hætti að skólar fá greidda tiltekna
lágmarksfjárhæð fyrir hvern nemanda. Þetta leiðir til þess að skólar þurfa að keppa
um nemendur að einhverju marki. Val foreldra er talið gefa sveitarstjórnum vísbend-
ingar um gæði skólastarfs (Helgesen, 2000). Boðberar þessarar hugmyndafræði telja
að líta megi á skóla sem hverjar aðrar stofnanir sem afhendi vörur eða veiti þjónustu á
frjálsum markaði. Gert er ráð fyrir að gæði þjónustu aukist með samkeppni neytenda
(Henig, 1994). Í þessu tilviki muni foreldrar sem neytendur menntunar fyrir hönd