Uppeldi og menntun - 01.01.2010, Side 124
Uppeldi og menntUn/icelandic JoUrnal of edUcation 19(1–2)/2010124
StarfSánægJa framHaldSSKÓlaKennara
viðurkenningar í starfinu en að margra áliti eru stjórnendur og samkennarar sparir á
hrós. Stjórnendur fylgjast lítið með starfi kennarans og að sögn kennara er viðurkenning
skólastjórnenda á störfum þeirra oft byggð á umsögn annarra, t.d. nemenda eða
foreldra. Þessar niðurstöður eru samhljóða íslenskum rannsóknum á kennarastarfinu
(Sjá t.d. Anna Þóra Baldursdóttir, 2000; Oddný Harðardóttir, 2001; Sólveig Karvels-
dóttir, 2002) sem sýna að kennarar fá ekki næga uppörvun og hvatningu frá skóla-
stjórnendum. Athyglisvert er að sumir viðmælenda töldu sig ekki þurfa neina sérstaka
viður kenningu frá stjórnendum eða nemendum en töldu sig skynja það vel innra með
sér hvernig til hefði tekist með kennsluna.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna einnig að kenningar Herzberg o.fl. (1959) um
ytri og innri áhrifaþætti starfsins koma að nokkru leyti að góðum notum við greiningu
áhrifaþátta starfsánægju framhaldsskólakennara á Íslandi. Þættir í starfi kennara eins
og sjálfræði, fagmennska, ábyrgð og viðurkenning falla vel að líkani Herzberg um
innri hvatningarþætti er leiða til starfsánægju.
Að vísu sýna niðurstöðurnar að samskipti geti bæði ýtt undir starfsánægju og
vandamál. Í viðtölunum kom fram að ytri þætti í starfsumhverfi kennaranna, eins og
kjaramál, aðbúnað á vinnustað og samskipti við stjórnendur og samstarfsfólk, nefndu
viðmælendur fremur í tengslum við óánægju í starfi en ánægju, meðan innri hvatningar-
þættirnir, persónulegur þroski, ábyrgð, sjálfræði og árangur, tengdust fremur um-
ræðum þeirra um starfsánægju. Sama má segja um umræðu þeirra um samskipti við
nemendur, sem við leggjum til að verði talin til innri hvatningarþátta.
Ljóst er á þessari rannsókn að greina þarf eðli samskipta betur en gert hefur verið
til að unnt sé að staðsetja þau sem ytri eða innri hvatningarþátt. Samskipti kennara
innbyrðis og samskipti kennara og stjórnenda eru samkvæmt rannsókn okkar greini-
lega ytri þættir og koma heim og saman við líkan Herzberg o.fl. (1959). Samskipti kenn-
ara og nemenda eru hins vegar annars eðlis eins og fram kemur í niðurstöðum þessarar
greinar. Persónubundnir þættir í fari kennara, eins og samskiptahæfileikar, starfs-
reynsla, áhugi og fagmennska, virtust eiga þátt í að skapa, móta og viðhalda jákvæðum
tengslum þeirra við nemendur. Þegar kennurum tókst að mynda þessi jákvæðu tengsl
við nemendur skilaði það sér í aukinni starfs ánægju þeirra. Við sköpun og mótun
jákvæðra tengsla við nemendur fundu viðmælendur til innri umbunar. Jákvæðar
tilfinningar þeirra tengdust því að ná árangri í samskiptum sínum við nemendur.
Samkvæmt kenningu Herzberg o.fl. (1959) leiðir persónulegur árangur í starfi til raun-
verulegrar starfsánægju vegna þess að starfsmaður fullnægir starfstengdum þörfum
sínum. Árangursríkt starf hans verður þannig auðgandi upplifun og hann finnur til
innri umbunar. Þetta kom skýrt fram í viðtölum við íslensku framhaldsskólakennar-
ana. Eiginleg og raunveruleg ánægja þeirra byggðist á því að þeir gátu nýtt persónu-
lega eiginleika sína, hæfni og þekkingu til árangurs í samskiptum við nemendur.
Þessi gildi, sem viðmælendur töldu nauðsynleg til að byggja upp jákvæð tengsl við
nemendur, eru í samræmi við niðurstöður Jónu Guðbjargar Torfadóttur og Hafdísar
Ingvarsdóttur (2008), Sigrúnar Aðalbjarnardóttur (2007) og Hafdísar Ingvarsdóttur
(2004) um samskipti kennara og nemenda. Á grundvelli viðtala við framhaldsskóla-
kennarana er auk þess hægt að taka undir með Evans (1998) um að raunveruleg starfs-