Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1947, Side 23
Tvær Kliðhendur
Eflir Guttorm J. Guliormssou
AFTURHVARF
Bregður mér við þá sjón, að sjá ei hnípna
Sál mína vera í för með hljóðum ekkjum;
Svífandi heldur heyra yfir bekkjum
Kórsöngva skæra skógar organ pípna.
Tónlistin á sér upphaf þar sem gróa,
Eflast og þroskast lauftré villimarka,
Hljóðfærakliðinn aspa, álms og bjarka.
Til þeirra radda eg runnið hef á skóga.
Mannabygð, eftir hrannmorð heims, er valur,
Hugsjóna minna og vona dánarbeður.
Hingað ég flýði hennar dauðaþögn.
Heyrist í þínum hásöng, dýrðarsalur,
Hjartaslög tímans; nýrra dyra kveður
Þörfin að leysa lífsins kjarnamögn.
SNJÓKORNIÐ
Snjókornið skæra krystals víravirkið,
Viðkvæmt og smágert, kemur þó til jarðar
Heilt innan sviga sinnar megin gjarðar.
Af því er dimma hríðin; hvíta myrkrið.
Samt verður dýrð af dýrstu eðalsteinum
Döpur hjá því er skín við tungli og sól.
Stundum sem fjúki stjörnudust í skjól,
Sólgneistar hrökkvi af hrímgum viðargreinum.
Eilífðarblóm úr ís, þó bráðni og þorni,
Eimur það verði, daggartár og lind,
Sálin þess mun hin sama áfram halda.
Hún er hin sama á heimsins kveldi og morgni,
Hásæti skipar efst á jökultind.
Því, sem er eilíft, efstu tindar falda.