Árbók VFÍ/TFÍ - 01.06.2003, Blaðsíða 317
IEEE 1394 sem nefndur er „FireWire". Þessi staðall nær allt að 400 Mb/s hraða og einnig
er USB staðallinn orðinn geysilega hraðvirkur eða allt að 480 Mb/s. Ný útgáfa af
FireWire, IEEE 1394b nær 800 Mb/s á koparstreng og allt að 3200 Mb/s á ljósleiðara. Fyrir
fjarskipti yfir mjög stuttar vegalengdir hentar vel staðallinn sem nefndur er Blátönn
(Bluetooth). Blátönn er spáð bjartri framtíð sem fjarskiptamáti sem hefur þann megin til-
gang að losna við tengisnúrur. Blátönn er ódýr og notar afar lítið afl, u.þ.b. 1/10 af því
afli sem notað er þegar fjarskipti með IEEE 802.11b fara fram. Þetta skiptir miklu máli ef
tækin ganga á rafhlöðu.
Með heimanetum opnast fólki nýir kostir við hvers kyns upplýsingaöflun. Maður sem
horfir á sjónvarp getur fundið ítarefni um það sem glæðir áhuga hans hverju sinni
hvaðan sem er úr íbúðinni. Upplýsingaþjónusta sem er aðlöguð áhugasviði hvers heim-
ilismanns verður til reiðu. Dæmi um þetta er fjarkennsla. Með heimanetum er hægt að
setja upp myndsímafundi og þannig að taka þátt í kennslustundum þótt menn séu stadd-
ir heima hjá sér. í verkefninu Elena sem styrkt er af Evrópusambandinu undir 5. ramma-
áætluninni á svið upplýsingatækni er nú unnið að smíði vitvera (e. agents) sem hægt er
að setja upp með sérþarfir hvers og eins um námsefni. Vitveran fer um netið og leitar að
námsefni í samræmi við þær kröfur sem hafa verið upp settar [4]. Ýmis önnur upp-
lýsingaþjónusta mun tengjast heimanetum. Má þar nefna fjargeymslu upplýsinga (e.
Storage Area Networking, SAN) þar sem menn geyma mikilvæg gögn á fjarlægum stað,
t.d. hjá símafyrirtæki. Þetta eykur gagnaöryggið til muna, t.d. eyðileggjast ekki stafrænu
fjölskyldumyndirnar þótt vá beri að höndum á heimilinu.
Með heimanetum opnast nýjar víddir í því að framreiða skemmtiefni á heimilum.
Fjarskiptafélög telja mikla framtíð fólgna í því að bjóða sjónvarpsþjónustu á netum sínum
þar sem kvikmyndaveitu (e. Video on Demand, VoD) ber hæst. Stafræn upptökutæki (e.
Personal Video Recorder, PVR) eru afar spertnandi kostur. Tölva tekur við stafrænu sjón-
varpsmerki og getur skráð það á harða diskinn. Með stafræna merkinu koma upplýs-
ingar um efnið (e. Electronic Programme Guide, EPG) sem tölvan notar m.a. til að ákveða
hvenær upptaka skuli hefjast. Ef eigandi tölvunnar hefur gefið henni upp hvers konar
sjónvarpsefni hann hefur mest yndi af getur tölvan tekið sjálfstæða ákvörðun um hvort
taka skuli upp eða ekki. Þetta getur hún gert fyrir allar þær sjónvarpsrásir sem tiltækar
eru á heimanetinu. Einnig getur hún sniðgengið allar auglýsingar. Með þessu móti
verður í raun til ný sjónvarpsrás sem er sniðin að smekk hvers og eins. Með núverandi
tækni er vel hægt að koma einnar klst. efni fyrir á einu GB af diskrými. Miðað við
núverandi verð á diskrými kemst efni sem tekur á annað hundrað klukkustundir á disk
sem kostar um tíu þúsund krónur. Heimanetin munu einnig hjálpa við dreifingu sjón-
varpsefnis milli tækja á heimilinu.
Stýringar og vöktun ýmissa húskerfa verður hluti af því sem fellur undir verksvið
heimaneta. Þar á meðal eru hitastýrikerfi húsa sem þykja spennandi kostur í útlöndum
en óvíst hvort fjárfesting í slíkum kerfum á Islandi geti nokkru sinni skilað sér. Öðru
gildir um stýringu á lýsingu þar sem m.a. er hægt að láta netið kveikja ljós á kvöldin þótt
enginn sé heima, opna fyrir útvarpið eða draga gardínur frá og fyrir. Öryggisvöktun
verður mikilvægur þáttur í þjónustu heimaneta. Auðvelt er að setja upp myndavélar í
húsum sem geta vaktað dyr eða herbergi. Myndavélarnar geta verið þráðlausar og senda
myndir sínar inn á netþjón heimanetsins. Hann hefur hugbúnað með hreyfiskynjun og
byrjar að taka upp kvikmynd þegar hreyfing skynjast. Þessa kvikmynd er hægt að senda
á fjarlægan netþjón til geymslu, kerfið getur hringt í farsíma húseigandans, nágranna eða
öryggisvarðar. Þegar þriðju kynslóðar farsímakerfi verða komin í notkun getur kerfið
einnig sent kvikmyndina í farsíma sömu aðila. Kerfi af þessu tagi nýtist ekki eingöngu til
þjófavarna heldur gæti það skynjað óæskilegt vatnsrennsli, eld og aðra óáran sem hreyf-
ist. Hægt er að hugsa sér að nota farsíma sem lykla að heimilum manna. Þar sem
farsíminn hefur SIM-kort sem er einstakt fyrir hvern einstakling er hægt að nota far-
símann sem lykil. Hægt er að senda upplýsingar af SIM-kortinu um Blátönn inn á
heimanetið sem getur þá opnað dyrnar fyrir viðkomandi.
Tækni- og vísindagreinar
3 1 3