Læknablaðið - 15.02.2001, Blaðsíða 24
FRÆÐIGREINAR / BARNALÆKNISFRÆÐI
Inngangur
Offita er talin algengasta heilsufarsvandamál fólks í
hinum vestræna heimi. Talið er að um þriðjungur
allra Bandaríkjamanna þjáist af offitu og offita er
talin önnur algengasta dánarorsök af viðráðanlegum
orsökum þar í landi (1-3).
Offitu má skilgreina sem óvenjumikla söfnun
þríglýseríða í fitufrumur. Við skilgreiningu á offitu er
oft notast við hugtakið líkamsþyngdarstuðull (LÞS)
(body mass index, BMI) sem er þyngd viðkomandi
einstaklings deilt með hæð hans í öðru veldi (kg/m2).
Þessa stærð er auðvelt að mæla og reikna út og hefur
hún reynst hafa sæmilega fylgni við nákvæmari
fitumælingar og er því hjálpleg við læknisfræðilega
skilgreiningu á offitu (4). Meðalgildi líkamsþyngdar-
stuðuls bandarískra karla er um 25 kg/m2. Talið er að
æskilegast sé að gildið sé á bilinu 23 til 25 kg/m2 (5).
Sýnt hefur verið fram á að ef líkamsþyngdarstuðull
fer yfir 28 kg/m2 megi búast við þrisvar til fjórum
sinnum meiri hættu á sjúkdómum á borð við
heilablóðfall, blóðþurrðarsjúkdóma í hjarta og
sykursýki af gerð II heldur en hjá eðlilegum
einstaklingum (6). Offita í barnæsku er ennfremur
talin auka hættu á sjúkdómum þegar komið er fram á
fullorðinsár, óháð því hvort breyting verði á holdafari
(7).
Margt bendir til að ýmsir erfðaþættir ráði að
miklu leyti hve miklum fituvef viðkomandi safnar á
sig (8-12). Til þess að einstaklingur haldi sömu þyngd
þarf að vera nákvæmt jafnvægi á milli fæðuinntöku
og orkunotkunar. Ekki er að fullu vitað hvernig
þessu jafnvægi er stjórnað en fjöldi kenninga hefur
verið settur fram (13-21). Fjöldi rannsókna hefur
einnig verið framkvæmdur til að áætla að hve miklu
leyti offita er erfður eiginleiki meðal manna.
Tvíburarannsóknir hafa sýnt fram á erfðastuðla á
bilinu 0,4-0,98 og verður það að teljast nokkuð
afgerandi vísbending um að töluverðan hluta offitu
megi rekja til erfðabreytileika (22-25). Ljóst er að
erfðir ráða miklu um breytileika í líkamsþyngdar-
stuðli, fitudreifingu og fleiri eiginleika því tengda.
Erfiðlega hefur gengið að finna erfðaþætti sem geta
skýrt þetta í mönnum. Hins vegar hefur tekist að
einangra nokkur gen í músum og rottum þar sem
gallar valda alvarlegri offitu. Einna þekktast þessara
gena er ob genið í músum. Afurð gensins er
eggjahvítuefnið leptín. Samsvarandi gen í mönnum
er LEP genið (26). Ef mýs eru arfhreinar fyrir
stökkbreytingu í þessu geni (ob/ob) verða þær
sjúklega feitar ásamt því að blóðsykur hækkar (26).
Aðeins örfá dæmi um slíkar stökkbreytingar hafa
fundist í mönnum með offitu. (27,28).
Þau gen sem helst hafa verið skoðuð með offitu í
huga tengjast flest hver stjórnun á fæðuinntöku,
orkunotkun og öðrum efnaskiptaferlum. Nýlega var
lýst stökkbreytingum í genum sem við koma
sérhæfingu fitufrumna og fitusöfnun og hafa bein
tengsl við offitu. Má þar nefna PPARy (peroxisome
proliferator activated receptors) genin sem eru
umritunarþættir sem bindast og svara hormónum
(29-31). Nýlega tókst að staðsetja PPARy genin á 25
bandi p armsins á litningi 3 (3p25) (31-33). Hvað
varðar þroska og sérhæfingu fitufrumna hefur
mikilvægi PPARý2 gensins orðið augljóst, en genið
gegnir lykilhlutverki við umritun ýmissa gena sem
einkennandi geta talist fyrir fitufrumur (29,34-41).
Nýlega var lýst stökkbreytingunni Proll5Gln í geni
PPARy2 og sýnt fram á marktæk orsakatengsl við
offitu en talið er að hún hafi einmitt þau áhrif að
koma í veg fyrir fosfórýleringu sem leiðir til aukinnar
starfsemi umritunarþáttarins (42). Ekki er vitað hve
algeng þessi stökkbreyting er í raun og veru eða
hvort hana er að finna hjá öllum þjóðum. Því hefur
verið haldið fram að offitu, sem fram kemur á
barnsaldri, megi fremur rekja til erfða en síðkomnari
tilfelli (43). Markmið rannsóknarinnar er að kanna
hvort stökkbreytinguna Proll5Gln, og aðrar
stökkbreytingar á svipuðu svæði PPARy2, er að finna
meðal of feitra íslenskra barna.
Efniviður og aðferðir
Úrtak: Haft var samband við 48 einstaklinga sem
hafa verið í meðferð hjá innkirtlasérfræðingi barna á
Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Um var að ræða einstak-
linga sem fengið höfðu greininguna offita (obesitas)
og höfðu líkamsþyngdarstuðul yfir 28 kg/m2.
Upplýsingabréf voru send til aðstandenda og í kjöl-
farið haft samband símleiðis. Þátttöku í rannsókninni
samþykktu 38 og skrifuðu allir undir upplýst
samþykki. Einnig gáfu átta aðstandendur sýni. Við
sýnatöku skrifuðu þátttakendur undir upplýst
samþykki til þátttöku. Aður en rannsóknarvinna
hófst hafði vísindasiðanefnd Sjúkrahúss Reykjavíkur
fallist á fyrirkomulag hennar.
Hugtakið líkamsþyngdarstuðull var notað til að
lýsa svipgerð einstaklinganna. Þátttakendur höfðu
líkamsþyngdarstuðul á bilinu 28,0 til 52,2 kg/m2.
Meðaltal alls hópsins var 35 kg/m2 og gefur sú tala
nokkuð góða mynd af hópnum sem heild. Aldur var
á bilinu fjögurra til 41 árs. Meðalaldur var um 19 ár
en langflestir voru á aldrinum 10 til 20 ára.
Kynjaskipting þátttakenda var nokkuð jöfn: 23 konur
(53%) og 20 karlar (47%).
Aðferðir: Teknir voru 10 ml af heilblóði til DNA
einangrunar og 10 ml af sermi sem geymt var til
hormónamælinga. DNA var einangrað úr heilblóð-
inu með prótínasa K meltingu og hefðbundinni
etanólútfellingu.
Fyrst var leitað sérstaklega að Proll5Gln stökk-
breytingunni. 131 basapara DNA bútur sem inni-
heldur viðkomandi stökkbreytingu var magnaður
upp með fjölliðunarhvarfi (polymerase chain
reaction). Við hvörfin voru notaðir þreifararnir
(Pharmacia Biotech)
120 Læknablaðið 2001/87