Tímarit Máls og menningar - 01.12.1967, Síða 64
Tímarit Máls og menningar
Liðlega tvítugur var Hannes Hafstein þegar fullskapað skáld, og þau kvæði
hans, sem fyrst vöktu athygli manna á honum og langlífust hafa orðið, eru
helguð lífsþorsta æskunnar, hreystinni, karlmennskunni og kvennaástum af
ætt heimsins og holdsins. Þessum ljóðum var fagnað nær einróma af sam-
tíðarmönnum hans, það varð aldrei hlutskipti Hannesar Hafsteins að verða
misskilinn eða vanmetinn snillingur. Hann túlkaði og tjáði í skáldskap sínum
eitthvað, sem íslenzka þjóðin skildi og þráði, í heimi ljóðsins var hann í sátt
og samræmi við sitt fólk, og þetta játuðu einnig þeir, sem voru svæsnustu
andstæðingur hans í pólitískum efnum. Og þó var í boðskap Hannesar, í
fagnaðarerindi bókmenntalegrar raunsæisstefnu, falin nokkur hætta á, að í
sundur drægi með honum og þjóð hans. I fyrirlestri, sem Hannes Hafstein
flutti í Reykjavík í janúarmánuði 1888, komst hann m. a. svo að orði: „Vor
tíð er sárakönnunarinnar og lækninganna tíð í andlegu og líkamlegu tilliti.
Tímans heróp er líf persónunnar, ekki gloría um hina afdregnu hugmynd:
þjóð. Vor tími er tími hinna verklegu framfara, gufunnar, rafmagnsins og
rannsóknarinnar stolti tími.“ Og í framhaldi af þessu taldi hann skáldskap-
inn á Islandi vera „náklukkunnar dinglumdangl yfir dauðum og útslitnum
hugmyndum.“
Það fer ekki á milli mála, hver er uppruni þessara skoðana Hannesar: þær
eru úr hugmyndaheimi Brandesar, hins mikla danska meistara, er útgefendur
Verðandi tignuðu og dáðu á þessum árum. Hér er boðuð einstaklingshyggja
borgaralegrar hámenningar, svo sem hún birtist í ritum Brandesar, heims-
borgarahyggj a, sem átti nokkurn rétt á sér í þroskuðu borgaralegu þjóðfé-
lagi. En hún var dauðadæmd á íslandi í lok 19. aldar, vanþróaðri danskri
nýlendu, þar sem þjóðernið og þj óðarhugtakið var lífsstofn fólks, er hugði
á sjálfsforræði og sjálfstæði í pólitískum efnum. íslenzkur sögulegur veru-
leiki afsannaði auðveldlega þá kenningu, að þjóð væri afdregin hugmynd.
Og Hannes Hafstein sannfærðist fljótlega um þetta sjálfur. Ástarljóð hans
til íslands, þau er hann orti meðan hann fékk valdið penna og þjóðin hefur
jafnan síðan sungið, bera því skýrast vitni. Aldamótakvæði hans er lang-
sýn menningarleg stefnuskrá færð í Ijóð, og við sem nú lifum höfum séð
hana rætast. Hannes Hafstein, hið unga skáld lífsgleðinnar, varð áður en
lauk mikill harmkvælamaður. Hann beið ósigur á stj órnmálaferli sínum og
á efri árum hans settist sorgin á rúmstokkinn hjá honum og sýndi ekki á sér
fararsnið. Hin átakanlegu tregalj óð til konu hans munu seint gleymast þeim,
er skilja mannlega þjáningu og meinleg mannanna örlög.
366