Tímarit Máls og menningar - 01.11.1971, Page 87
Rœða á Víetnamfundi
Margt getur valdið því, að við glötum okkar samsemd — okkar identiteti.
Og ef við höfum glatað því, þá erum við ekki lengur frjáls. Við erum eins og
sprellikarlar, sem mislynt umhverfið kippir í eftir duttlungum sínum.
Þetta er okkar mikla keppikefli — að halda í okkar samsemd, að vernda
okkur sjálf þrátt fyrir valdsamlegt stjórnkerfi, óréttlátt efnahagskerfi og
ástarsnautt mannlíf. — Því glatist það, þá erum við glötuð og allar okkar
vonir og draumar.
Aðeins frjálsir einstaklingar geta skapað frjálst mannlíf — en það hlýtur
að vera takmark allra.
Þegar við verjum frelsið — þá verjum við okkur sjálf — og það er skylda
en ekki forréttindi. Ef við eftirlátum það yfirvöldunum — óháð því hver
stjórnar — þá verður frelsið fljótlega að munaðarleysingja.
Það samfélag, sem gerir arðsemi fjármagnsins að einni allsherjar við-
miðun hefur ekki sett sér það takmark að tryggja frelsi og jafnrétti. Og í
staðinn fyrir að senda löggæzlumenn sína á kvöldnámskeið í lögfræði, sið-
fræði eða félagsfræði, er þeim kennt að berja og lemja á sem áhrifamestan
hátt.
Við eigum mikið starf óunnið í okkar landi. Samfélagsleg bæling hvata
er hér á háu stigi — enda púritönsk þjóð með afbrigðum. Arfur fortíðar-
innar og splúnkunýtt stéttaþj óðfélag láta ekki að sér hæða. Vonandi verða
eftirmæli afkomendanna um okkur ekki þau, að við hefðum viljað frelsa alla
nema okkur sjálf — og að þannig einkennist okkar tímabil af því sem við
höfum ekki gert.
IV.
Okkar Víetnam er hérna. Snúum okkur að verkefninu, því ef við viljum,
þá getum við gert margt og vandamálin eru nægileg.
Ræktum manneskjuna í okkur. Knýjum fram umbætur innanlands. Leggj-
um lóð okkar alltaf á vogarskál minnimáttans — og meðhöndlum aðra eins
og við viljum láta meðhöndla okkur sjálf.
Manneskjan verður alltaf að vera frumlagið — kerfið og umhverfið and-
lagið.
Strengjum þess heit að koma hernum í burtu og stöndum vörð um óháð og
frjálst ísland.
Við verðum að tryggja brottför hersins — þess sama hers sem myrðir og
eyðir í Víetnam.
En það allra minnsta sem við getum gert er að vera Víetnam trú — eins
165