Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Qupperneq 31
Silja Aðalsteinsdóttir
„Alltaf ein, það er best“
Um svipað leyti og þetta hefti TMM kemur út verður frumsýnt nýtt
leikrit eftir Kjartan Ragnarsson hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Skilnaður.
Tvær forsýningar voru á verkinu á Listahátíð í vor og þess vegna gefst
sjaldgæft tækifæri til þess nú að birta hugleiðingar um nýtt leikverk á
þessum vettvangi.
Kjartan Ragnarsson brýtur blað í eigin höfundarsögu með þessu nýja
leikriti. Fyrsta leikritið sem hann skrifaði, Saumastofan, var að ýmsu
leyti nýstárlegt að formi, með stíifærðum sögum í söng og leiknum
atriðum inni í leikritinu, en öll verk hans síðan hafa verið fremur
hefðbundin stofuleikrit þótt efni þeirra hafi stundum komið á óvart,
ekki síst í Jóa, næsta verki á undan Skilnaði.
I Skilnaði tekur Kjartan sér mikið frelsi í tjáningu. Leikritið er
sviðsett úti í sal í Iðnó, áhorfendur sitja á fjóra vegu þannig að helst
þurfa þeir að sjá leikritið frá öllum sjónarhornum áður en þeir dæma
það. Þeir þurfa líka að ímynda sér allt umhverfi annað en það skákborð
örlaganna sem leikið er á, vera fljótir að átta sig á því eftir leikhljóðum
og fasi hvenær sögupersónur eru heima hjá sér, hvenær í vinnunni,
hvenær annars staðar og þá hvar, í fortíð eða nútíð. Klippingin er
stundum svo hröð að sýningin krefst allrar athygli áhorfandans, hann
verður að ráða í öll tákn jafnóðum til að detta ekki út.
Allir leikendurnir nema einn leika mörg hlutverk og eru grímur
notaðar, ekki eiginlega til að skilja milli hlutverka heldur fremur til að
taka andlitin af leikurunum þegar þeir leika „almannaróm“ eða andlits-
lausan massa fólks — í hugarheimi aðalpersónunnar, á balli, í
fermingarveislu eða á sjúkrahúsi. Sviðssetningin þarf að vera hröð til að
blær verksins verði réttur, skili til áhorfenda taugaæsingi persónanna og
hraða og stressi nútímalífs. Nokkrar senur leikritsins sýna á stílfærðan
hátt fáránleika samfélags okkar betur en hefur áður verið gert í íslensku
verki, ég nefni bara brandarana í veislunni og aðsóknina að
aðalpersónunni á ballinu.
Búningur þessa verks er nýstárlegur miðað við fyrri verk Kjartans en
efni þess er ekki eins nýstárlegt. Skilnaður hjóna er tískuefni skáld-
sagna, kvikmynda, sjónvarps- og sviðsleikrita, jafnvel ljóða — að ég tali
nú ekki um raunveruleikann — svo að hugmyndin hefur verið nærtæk.
397