Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 53
Gudbergur Bergsson
Latneskur andi
Þegar ég var ungur maður og hafði fengið daufan forsmekk af annarri
menningu en hversdagsmenningu þá dreymdi mig að komast í ein-
hverja snertingu við hámenningu og þá í París og að dvelja þar í nokkur
ár, við að vinsa úr menningu latnesks anda það sem hentaði mér og
menningu þjóðar minnar. Þannig hugðist ég auðga anda okkar beggja,
þiggja og gefa í senn, matast og melta. Einhverra hluta vegna beindi ég
hugarsjónunum sjaldan lengra suður á bóginn en að þeim stað þar sem
París rís. Mig grunar að þá sjaldan ég renndi huganum sunnar hafi mér
þótt að ég væri að ana inn á auðnir. París var sá punktur á landakortinu
sem heillaði og stöðvaði hugarsjónina.
Aðstæðurnar, og að einhverju leyti eðli mitt, hafa samt hagað málum
þannig að ég hef aldrei dvalið líkamlega langdvölum á þeim slóðum sem
stöðvuðu athygli mína í æsku. Þegar til kastanna kom var borgin París
of dýr fyrir minn auma fjárhag, og af þeim sökum hef ég dvalið
langdvölum á fátæklegri slóðum í ódýrari löndum öllu sunnar, á þeim
stöðum sem ég hafði haldið að væru auðn og svo fastar klappir að engin
leið væri að blanda geði við grjótið.
Ahugi minn á hinni ímynduðu menningu — sem var ímyndun mín af
því ég hafði aldrei kynnst henni í raun — spratt af áhuga mínum á
málaralist og ljóðum, og áhuginn blossaði upp eftir örstutt kynni af
mönnum sem höfðu haldið að heiman út í óvissuna sem ríkti á
meginlandi Evrópu eftir stríð. Þetta voru lítt menntaðir menn sem
óttuðust ekki óvissuna. Þótt menn þessir hefðu ekki haldið til Parísar
til að mála, syngja eða yrkja, heldur fóru þeir einvörðungu þangað af
þrá og lifðu á að safna drasli og selja, þá tengdi ég þetta fremur
óíslenska framtak þeirri sömu óstýrilátu ástríðu sem rak fátæka lista-
menn hinna ýmsu þjóða til Parísar í byrjun aldarinnar. Mennirnir
höfðu safnað pappír, flöskum og drasli sér til viðurværis í borg
borganna, og þörf þeirra líktist þörf listamannsins fyrir að standa
föstum fótum í óvissunni og ævintýrinu, löngun hans til að drepa
drauminn með því að lifa hann og gera hann hversdagslegan, þannig að
hægt sé að dreyma endalaust aftur nýja drauma ennþá æðri. Þannig
dreymdi mig framhald af draumum þessara manna.
419