Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 58
Tímarit Máls og menningar
Leitin að sálinni og guði fór fram í latneskum görðum sem kepptu
við náttúruna. Með tímanum varð garðurinn tákn hins latneska anda og
bar öll einkenni hans.
Vespesíanus keisari lét fyrstur klippa gróður þann sem óx í görðum
hans. Keisarinn er því faðir þess garðs sem nú er almennt kallaður
franskur garður. Garðurinn er náttúra, heimur sem hönd og vilji
mannsins hafa smíðað og breytt. Garðurinn varð einnig með tímanum
tákn þeirrar spildu heilans sem menn hugsa á. Að rækta garðinn sinn er
að rækta hugarfarið, hugsun og lífsviðhorf, og slík viska er frá frökkum
komin á okkar nútímavarir.
Skoðum þá garða og höfum jafnframt hugfast allt þjóðlífið, þótt við
nefnum það hvergi.
I frönskum garði eru öll form geometrísk. Garðurinn er ekki skipu-
lagður þannig að unun sé að flatmaga sig í honum, eins og á enskri
grasflöt, heldur er þar allt heldur óþægilegt fyrir líkamann. Bekkir eru
harðir og bakið á þeim beint. Þeir eru ævinlega undir trjám sem veita
forsælu, aldrei þar sem sól skín. I sólinni eru lausir stólar, og þú borgar
fyrir að sitja á þeim í lauslæti sólargeislanna. Bekkirnir eru smíðaðir
fyrir alvarlega þenkjandi fólk sem situr í forsælu og hugsar, les eða
ræðir um heimspeki en rennir stöku sinnum augum til dúfna í ástar-
leikjum á stígnum.
I frönskum garði er sérhvert tré og runni klippt þannig að lauf-
skrúðið myndi geometrísk form: keilur, kúlur, þríhyrning. Stígar eru
breiðir og eftir þeim eiga að rölta settlegir menn og konur með
kjölturakka. Hárið á rökkunum er einnig klippt eftir kúnstarinnar
reglum, því hár á hundum fær jafnvel ekki að vaxa óhindrað og frjálst
heldur í ætt við flatarmálsfræði, klippt í hringa, hárdúska; og hund-
urinn veifar ekki skotti heldur keiluformi.
Einstakt dæmi um geometríska franska hugsun er að sjá í kvik-
myndinni I fyrra í Maríenbad. Par í garði var mönnum og konum stillt
upp í heildarsamruna sem laut formi garðsins og náttúru hugsunarinn-
ar. Fólkið var form meðal forma.
Og það er ekki einvörðungu landslagið sem verður að lúta viljanum,
heldur líkaminn líka, einkum líkami konunnar sem sífellt er verið að
fjalla um sem helstu plágu mannlífsins. Sérhver kjóll og hárgreiðsla
franskra tískufrömuða ber vott um rökhugsun og þjóðfélagshyggju.
Hver saumur, hvert hár er beygt undir lögmál viljans. Líkaminn er ekki
til þess gerður að vinna störf, hann er stílfærð fegurð, helst kynlaus
424