Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Page 66
Tímarit Máls og menningar
hinum almenna lesanda bókmennta og er ekki síður mikilvæg en hin
fræðilega. Einstaka greinar eru þó til um blaðagagnrýnina og mun ég vitna í
nokkrar slíkar (aðallega þýskar), en fyrst og fremst mun ég skoða nokkra
íslenska ritdóma. Eg mun leggja aðaláherslu á blaðadóma um þrjár bækur
frá síðasta ári: Sólin og skugginn eftir Fríðu Sigurðardóttur, Haustið er
rautt eftir Kristján Jóhann Jónsson og I sama klefa eftir Jakobínu Sigurð-
ardóttur.1 Einnig mun ég minnast á dóma um 1 borginni okkar eftir Véstein
Lúðvíksson og Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson.
Hvorki mat mitt á þessum ritdómum né aðrar skoðanir mínar um gagn-
rýnina koma frá „hlutlausum“ eða „hlutlægum" sjónarhóli bókmenntafræð-
innar. Það er einmitt helsta goðsögn gagnrýninnar að mat ritdómara og
smekkur geti haft eitthvert hlutlægt gildi.2 Hins vegar ætti greining þeirra á
verkum að stefna að hlutlægni, þó svo henni verði aldrei náð að fullu, m. a.
vegna þess að mat verks (þ. e. þann persónulega dóm sem gagnrýnandi
fellir um það) og greiningu þess er aldrei hægt að skilja fullkomlega í
sundur. — Eg ætlast sem sagt til að skrif mín verði lesin gagnrýnum
augum; í grein sem þessari er ekki minnst á slíkt að ástæðulausu, því það
skal strax tekið fram að margir gagnrýnendur virðast ekki gera ráð fyrir
gagnrýnu hugarfari lesenda sinna, hvað þá að þeir reyni að ýta undir það.
Að auki er vert að taka fram að skrif mín má ekki skoða sem vörn fyrir
viðkomandi rithöfunda eða verk þeirra. Þar sem ég hef tekið neikvæða
afstöðu til málflutnings ritdómara er ég ekki að ráðast gegn skoðunum
hans, heldur að gagnrýna framsetninguna.
Aður en vikið verður að sjálfum ritdómunum er ástæða til að snerta á
ýmsum veigamiklum þáttum gagnrýninnar.
2. Hlutverk blaðagagnrýni og staða gagnrýnandans
Hvert er hlutverk bókmenntagagnrýninnar í þjóðfélaginu? Hverju þarf
gagnrýnandinn helst að sinna er hann skrifar ritdóm um skáldverk? Ekki
ætla ég að reyna að gefa einhlít svör við þessum stóru spurningum, en
ýmsum vangaveltum koma þær óneitanlega af stað.
Hinn kunni þýski rithöfundur og gagnrýnandi Reinhard Baumgart lýsir
í grein yfir mikilli óánægju með stöðu blaðagagnrýninnar og segir m. a.:
Bóksalar, bókaútgefendur og höfundar vita nákvæmlega hvað ritdómar eru
fyrst og fremst nú á tímum: ókeypis bókaauglýsingar. Einungis ritstjórar
bókmenntasíðna dagblaðanna og ritdómaralið þeirra virðist ekki gera sér
grein fyrir þessu hlutverki þeirra.3
Þetta eru stór orð og ég vil alls ekki taka svo djúpt í árinni að segja íslenska
432
J