Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Síða 68
Tímarit Máls og menningar
sem fréttum er ætlað að sinna, og hefur sams konar hlutlægnisblæ yfir sér.
Augljósast er þetta í þeim ritdómum sem eru fyrst og fremst endursögn.
Með þessu dylja ritdómar sitt rétta eðli, því þeir eru í raun miklu
persónulegri skrif en fréttaflutningur. Enda er það svo að í kjölfar endur-
sagnar fylgir yfirleitt dómurinn um verkið, staðhæfing um kosti þess eða
galla. Rétt eins og endursögnin lítur sú staðhæfing gjarnan út fyrir að vera
svo óhjákvæmileg og óumdeilanleg að lesandi gleymir að einungis er um að
ræða álit einstaklings sem dæmir verkið frá eigin bæjardyrum (þetta tengist
umræðunni um „yfirvaldið" hér að neðan). Og þegar þannig er komið held
ég að ritdómar geti vel fallið inn í það hlutverk bókaauglýsinga (jákvæðra eða
neikvæðra, eftir því hvaða dóm markaðsvaran fær) sem Baumgart ræðir um.
Hvaða eiginleikum þurfa gagnrýnendur að vera búnir? Ég held, að hlut-
verk gagnrýnandans sem lesanda verði að telja undirstöðu bókarýni og þar
með ritdóma. Dagný Kristjánsdóttir og Þorvaldur Kristinsson leggja
áherslu á þetta í grein hér í TMM:
Frumforsenda allrar gagnrýni sem mark er á takandi er að hún sé borin fram
af góðum lesendum, lesendum sem leggi sig alla fram við að skilja það sem
höfundurinn hefur fram að færa og koma til móts við það. Þeir lesendur
reyna eftir megni að forðast þá sleggjudóma sem yfirborðslegur lestur leiðir
af sér.*
I grein sinni „Um gagnrýni" talar Ólafur Jónsson einnig um að gagnrýnend-
ur hljóti „fyrst og fremst að vera góðir lesendur eigi þeim að verða nokkuð
ágengt.“5 En hvernig getum við skilgreint þennan „góða lesanda“ nánar?
Telja má upp almenn atriði eins og mikla reynslu í bókmenntalestri, góða
þekkingu á bókmenntum og sögu þeirra sem og að sjálfsögðu lifandi áhuga
á því sem bókmenntir fjalla um, mannlífinu sjálfu. Og í umfjöllun um hið
einstaka verk verður gagnrýnandi að hafa glöggt auga fyrir öllum megin-
þáttum þess, allri formgerðinni. Líklega er það hér sem ætla má að skil
verði með hinum „góða lesanda“ okkar og „almennum lesanda“ eða ímynd-
uðum meðallesanda. Það má ætlast til að „góður lesandi" gaumgæfi búning
verksins, form það sem viðfangsefnið hefur verið fellt í og orðið hefur
órjúfanlegur hluti inntaksins við sköpun verksins, en jafnframt sá hluti sem
almennir lesendur hugleiða oft ekki sérstaklega, þó hann hafi auðvitað
grundvallaráhrif á lestur þeirra og móttöku verksins í huga þeirra. — Form
verks, bygging, myndmál og stíll eru, svo notað sé orðalag Dagnýjar og
Þorvalds, engu síður það sem „höfundur hefur fram að færa“ og góðir
lesendur þurfa að „koma til móts við“, heldur en það sem til hægðarauka er
stundum kallað „inntak“ eða „efni“ verks, en fyrirfinnst að sjálfsögðu ekki
eitt og sér.
434