Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 70
Tímarit Máls og menningar
ritdómar ættu að vera áhugaverðir fyrir viðkomandi rithöfunda og þeim
marktæk umsögn, mikilsverður vitnisburður um viðbrögð þjálfaðra les-
enda (og á þetta ekki síst við um unga höfunda). En þessa hlið ritdóma má
ekki ofmeta og vart er til góðs að gagnrýnendur miði greinar sínar við
mögulega afstöðu rithöfundarins, — svo lengi sem verkinu er sýnd full
virðing þarf gagnrýnandinn ekki að velta fyrir sér viðbrögðum höfundar.
Eg get því t. d. ekki verið sammála Jóni skáldi úr Vör er hann segir í
blaðagrein um gagnrýnina:
Það er gagnrýnendanna að hjálpa ungu fólki að átta sig í tíma, víkja mönnum
af rangri hillu yfir til hinnar réttu, þar sem hæfileikar þeirra njóta sín betur.8
Það kveður við svipaðan tón í grein sem Þráinn Bertelsson skrifaði á sínum
tíma um blaðaritdóma, en þar harmar hann að muna „varla til þess, að hæfi-
leikalausum rithöfundum hafi verið bent á að snúa sér að öðrum störf-
um . . Hér er gagnrýnandanum ætlaður of hár sess; ef þetta væri hlutverk
ritdómarans, væri hann á góðri leið með að breytast úr „góðum lesanda" í
„yfirvald“ (sem er í andstöðu við þá hógværð sem Jón annars leggur áherslu
á að gagnrýnendur ættu að temja sér). Það er einmitt þetta sem að mínu
mati gerir suma ritdóma svo neikvæða: raust yfirvaldsins í þeim.
Ef við lítum aftur á stöðu gagnrýnandans milli skáldverksins og lesand-
ans, þá er ljóst að hann gegnir þar býsna mikilvægu miðlunarhlutverki.
Rétt eins og er með stöðu gagnrýnandans gagnvart höfundinum, er einnig
mikil hætta á að ofmeta eða rangmeta það meginhlutverk hans sem snýr að
lesandanum. Hellmuth Karasek segir t. d.:
Ritdómari er maður sem treyst hefur verið fyrir forvali; hann veitir við-
skiptaþjónustu og verður þess vegna að byggja á ánægðum viðskiptavinum.10
Heinz Ohff tekur enn dýpra í árinni:
Gagnrýni er í grundvallaratriðum nákvæmlega jafn mikilvæg og það sem
gagnrýnt er — hvað væri mynt ef enginn væri til að koma henni í umferð?"
Strax og þannig er farið að skoða gagnrýnina með augum verslunar-
mannsins er hætta á að hún hrapi niður í hlutverk bókaauglýsingarinnar
sem fyrr var rætt um. Jafnframt fær gagnrýnandinn þetta varhugaverða
vald: hann er maðurinn sem á að segja fólki hvort ráðlegt sé að kaupa
viðkomandi bók eða ekki.
Nú stunda ritdómarar sem betur fer sjaldan beinlínis slíka ráðgjöf, en ég
álít samt að allt of oft komi gagnrýnendur fram í gervi „yfirvaldsins“ í
bókmenntalífinu. Of oft hljóma orð þeirra eins og þeir hafi undir höndum
436