Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Qupperneq 76
Tímarit Máls og menningar
virðist sá úrskurður í samræmi við ómannúðlega afstöðu þeirra yfirleitt og
hvernig þeir skáka í skjóli valdsins. Það kemur því lesanda í opna skjöldu
þegar Sigrún fer sjálf alvarlega að hugleiða þessa útskýringu á kvölunum og
máttleysinu (141, 148—9). Lesandi hlýtur í bókarlok að velta fyrir sér þeirri
mótsagnakenndu spurningu hvort læknarnir hafi haft rétt fyrir sér eftir allt
saman og það sé móðursýki sem Sigrún ætlar sjálf að sigrast á utan
sjúkrahússins. Eða hafa læknarnir bara náð að rugla Sigrúnu svona í
ríminu? Eða — ef sjúkdómurinn er fyrst og fremst „líkamlegur“ — getur
Sigrún nokkuð gert til að vinna bug á honum? Þannig er þessi saga, sem að
öðru leyti er með (ný)raunsæju sniði, skilin eftir „í lausu lofti“ (það er því að
vissu marki skiljanlegt að Jóhanna skuli rugla saman afstöðu lækna og
söguhöfundar). — Enginn þeirra fimm gagnrýnenda sem hrifnir eru af
bókinni minnast á þetta. Dagnýju finnst bókin „vel gerð“ og Rannveigu
þykir „röksemdarfærslan bæði eðlileg og sjálfsögð.“ „Einhverja galla mætti
benda á í uppbyggingu sögunnar“, segir Illugi, en finnst ekki taka því, vegna
þess að „heildaráhrifin eru góð.“
Olafur Jónsson er eini gagnrýnandinn sem horfir ekki fram hjá þessum
byggingargalla (DV 5. jan. 1982. Það mun sjaldgæft að fleiri en einn rit-
dómur birtist um bók í sama dagblaði — áður hafði Rannveig skrifað 29.
des. — en óneitanlega er mjög jákvætt að lesendur kynnist þannig fleiri en
einu sjónarmiði). Hins vegar tel ég umfjöllun Ólafs um þennan bókargalla
leiða hann á villigötur. Hann segir tveim sögum fyrir að fara í verkinu;
önnur sé „spítalasaga“ sem sögð sé „með nýraunsæju móti“ og fjalli um
vandamál Sigrúnar. „Hin sagan ætti að réttu lagi að geyma lýsingu þessa
vanda, greiningu sjúkdómsins . . .“ Ólafi finnst „spítalasagan", sem hann
greinir mjög ærlega, ekki fá staðist án hins söguefnisins, sem hverfur „að
mestu á bak við það fyrra“, og kemst að þeirri niðurstöðu að „An skilmerki-
legrar greiningar á sjúkdómi hennar hefur sagan í rauninni ósköp litlu að
miðla nema tilfinningasemi sinni. Af henni er á hinn bóginn nóg í sögunni.“
Við skilgreiningu fyrrnefnds galla tel ég Ólafi hafa orðið á vel kunn
gagnrýniglöp: að gera verki upp viðfangsefni og deila síðan á vanrækslu
höfundar að glíma við það. Eg get hvergi séð þess merki að höfundur ætli
að þróa í sögunni „greiningu“ á sjúkdómnum, né að lýsing þessa sjúkdóms
myndi nokkurn vísi að sérstöku söguefni. Álit ritdómara á því hvað rit-
höfundur hefdi átt að skrifa er ekki vænleg undirstaða gagnrýni og vel er
hægt að benda á galla án þess að það leiði til slíkrar umfjöllunar.
Tilvitnuð orð Ólafs koma einnig að öðru leyti mjög á óvart. Ef sagan
hefur, án þessarar greiningar, „ósköp litlu að miðla nema tilfinningasemi
sinni“, er þá „samneyti hinna kúguðu", samstaða þeirra og lífsbarátta, sem
Ólafur fjallar um fyrr í greininni, bara hjóm eitt og ekki „miðlunarvert“?
442