Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 96
Tímarit Máls og menningar
bókmenntagagnrýninni. Þeirri bókmenntagagnrýni sem hann skrifaði í blöð og
tímarit á síðustu árum Weimar-lýðveldisins var ekki fyrst og fremst ætlað að
miðla bókmenntalegum tíðindum eða leggja fagurfræðilegt mat á einstök verk,
heldur að nota þau til að vekja þann þjóðfélagshóp menntafólks, sem einkum
las þessa dálka, til umhugsunar um breytta stöðu sína og menningarafurðanna í
kjölfar fyrrgreindrar þjóðfélags- og tækniþróunar.
Sú grein sem hér fer á eftir þjónar sama tilgangi. Með því að líta á höfundinn
sem framleiðanda sem ræður yfir ákveðnu framleiðslutæki í krafti menntunar
sinnar, tækjabúnaðar og starfsreynslu, er ráðist gegn hugmyndinni um
„ríkidæmi hins skapandi persónuleika" sem fasistar héldu á loft í listumfjöllun
sinni.
Við gagnrýnina nýtur Benjamin kynna sinna af sovésku menningarástandi
fyrir valdatíð Stalíns (þ. á m. af eigin heimsókn 1927), eins og fram kemur í lok
greinarinnar. Síðast en ekki síst á ör þróun fjölmiðla- og fjölföldunartækni sinn
þátt í uppgjöri Benjamins við hefðbundnar hugmyndir um listina. Um þátt
fjölföldunartækni í því að breyta eðli og hlutverki listarinnar hefur hann fjallað
ítarlega í grein sinni „Listaverkið á tíma fjöldaframleiðslu sinnar“, sem birst
hefur í íslenskri þýðingu.3 Enda þótt þeir fjölmiðlar sem Benjamin drepur á í
greininni hér á eftir væru á nokkru frumstigi miðað við það sem nú er (sbr.
hvað umfjöllunin um dagblaðið er fyrirferðarmikil), þá hefur síðari þróun á
þeim vettvangi fremur undirstrikað mikilvægi þeirrar umræðu sem hér er fitjað
upp á, heldur en hitt. Nægir í því sambandi að benda á tilraun þýska rithöf-
undarins Hans Magnus Enzensberger til að tengja hugmyndir Benjamins síðari
þróun rafeindafjölmiðla.'1
Fyrirlestur Benjamins birtist fyrst á prenti árið 1966 í greinasafninu „Ver-
suche úber Brecht" og liggur sú útgáfa þessari þýðingu til grundvallar. Eg vil
þakka þeim Birni Jónassyni og Ornólfi Thorssyni fyrir yfirlestur á þýðingunni
og góðar ábendingar.
Þýd.
Það þarf að vinna menntafólk til fylgis við verkalýðsstéttina
með því að vekja það til vitundar um eðli hinna andlegu
starfa þess og stöðu þess í framleiðsluferlinu.
Ramon Fernandez.
Þið munið hvernig Plató fer með skáldin í hugleiðingum sínum um ríkið.
Hann neitar þeim um tilverurétt innan þess í nafni almennings. Hann hafði
tröllatrú á mætti skáldskaparins, en taldi hann þó skaðlegan og óþarfan — í
fullkomnu samfélagi vel að merkja. Spurningin um tilverurétt skáldsins
hefur síðan þá sjaldan verið sett fram á jafn áleitinn hátt; fyrr en einmitt nú
á tímum. Hún er að vísu ógjarnan sett fram í þessu formi. En þið kannist
462