Tímarit Máls og menningar - 01.09.1982, Side 112
Umsagnir um bækur
„Á ÞESSUM DÆGRUM TÖFRA“
Stefán Hörður Grímsson hefur nú sent
frá sér nýja ljóðabók eftir 11 ára hlé,
litla og yfirlætislausa bók með 21 ljóði.1
Ljóðin sverja sig að talsverðu leyti í ætt
við næstu bók á undan, Hliðina á slétt-
unni; þau eru styttri en áður gerðist og
framsetning hnitmiðaðri. Hið persónu-
lega, ferska líkingamál Stefáns er samt
við sig. Þarna birtist einatt list hins ó-
sagða, þess sem gefið er í skyn með
framandlegum, óvæntum líkingum,
jafnvel leik með fjarstæður eins og
löngum fyrr.
En það er ekki aðeins form Stefáns
Harðar sem hefur tekið breytingum,
yrkisefnin eru að nokkru leyti önnur.
Náttúru- og ástarljóð hafa alltaf skipað
stóran sess í ljóðum Stefáns, en kannski
aldrei eins og nú. Nú er jafnvel eins og
þessi ljóð hafi þokað burt öðrum yrkis-
efnum sem fyrirferðarmikil voru í fyrri
bókum. Margt kemur þó einnig kunn-
uglega fyrir. Eins og t. a. m. í Hliðinni á
sléttunni leikur Stefán sér hér með
tvöfalda merkingu orða (Sagarhljóð,
Fyrirbæn). Ef til vill má skilja fyrsta
kvæðið, Þegar ekið er (9) sem fortíðar-
skírskotun í ætt við Bifreiðin sem heml-
ar hjá rjóðrinu í Svartálfadansi. Skír-
skotun til fortíðar þjóðarinnar bregður
einnig fyrir í kvæðinu Syngjum fyrir
fugla:
Stillum í hóf sögum um göfugan
uppruna
en hefjum til dæmis söng fyrir fugla
(11)
1 Farvegir. Ibunn. Reykjavík 1981.
Annars er lítið um vísanir út fyrir
kvæðin. Meginstef þessa ljóðs er nátt-
úruunaður, vor, litadýrð, þögn sem
leitar í faðm söngsins — og röddin hvíta
sem brýst inn í ljósaskiptunum. Náttúr-
an skipar stóran sess í þessari bók eins
og fyrr segir. Athyglisvert er að eina
beina ádeiluljóðið í bókinni beinist að
firringu frá náttúrunni (Hornborð 18).
Dæmigert náttúrukvæði þessarar
bókar er hið örstutta og fallega ljóð
Grásteinn:
Grunur um huldu
sumarfugl
köngurló að spuna
Aldrei líta þig framar nokkur augu
(12)
Þetta er sumarmynd, blandin dulúð,
orðfá og sérkennileg. En hvert er tilefni
ljóðsins? Er þetta t. a. m. bernskuminn-
ing eða mynd þeirrar náttúru sem hefur
verið raskað og bylt? Slíkt verður ekki
fullyrt og er reyndar aukaatriði, mestu
skiptir sú fíngerða mynd hverfullar feg-
urðar sem brugðið er upp þannig að allt
verður numið og skynjað á nýjan hátt.
Um leið verða óglögg mörkin milli
undurs og veruleika.
I ljóðinu Dögun er fyrirsögnin ó-
eiginlegrar merkingar. Þetta er ekki
venjuleg dagskoma heldur tímamót,
stund nýrrar reynslu sem er slík að
jafnvel draumarnir fara hjá sér frammi
fyrir henni. Heimanbúnaður mannsins
ber keim af ritúali þegar hann gengur á
vit hins dularfulla og óþekkta:
478