Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Side 44
Heinrich Böll
Ekki aðeins á jólunum
I
Það er farið að gæta úrkynjunar í ætt okkar. Við reyndum um hríð að
leiða það hjá okkur, en nú hefur verið ákveðið að horfast í augu við
hættuna. Enn þori ég ekki að nota orðið hrun, en ógnvekjandi
staðreyndum fjölgar svo ört að þær eru orðnar að hættu, sem neyðir
mig til að skýra frá atburðum, sem samtímamönnum mun að vísu
finnast fjarstæðukenndir en eru eigi að síður staðreyndir sem ekki
verður hnekkt. Myglusveppir eyðingarinnar eru farnir að vaxa undir
hinni þykku og hörðu skel virðingar okkar. Hrúgur af banvænum
sníklum boða endalok vammleysis heillar ættar. Nú hljótum við að
harma að við skyldum ekki leggja eyrun við því sem Franz frændi
benti snemma á, að „útaf fyrir sig“ meinlaus atburður kynni að hafa
svo hræðilegar afleiðingar. Þessi atburður var sjálfur lítilfjörlegur, en
nú fylla fjölþættar afleiðingar hans okkur skelfingu. Franz varaði
okkur fljótlega við, en því miður naut hann of lítils álits. Hann hafði
valið sér starf sem hafði til þessa verið óþekkt í ættinni og hefði átt að
vera það áfram. Hann gerðist boxari. Hann, sem var þegar í æsku
þunglyndur og svo guðhræddur að það var alltaf talið vera „ástríðu-
fullt oflæti“, leiddist snemma út á brautir sem ollu Franz föðurbróð-
ur mínum, þeim hjartagóða manni, áhyggjum. Hann naut þess svo
mjög að skrópa í skólanum að það hlaut að teljast óeðlilegt. Hann
hitti skuggalega náunga í afskekktum görðum og þéttum runnagróðri
úthverfanna. Þar iðkuðu þeir hina óvægnu íþrótt, hnefaleika, og létu
sig engu skipta þó að þeir vanræktu arfleifð mannsandans. Snemma
komu í ljós hjá þessum piltum ódyggðir kynslóðar þeirra, en eins og
síðar varð bert reyndist sú kynslóð einskisnýt. Þeir voru svo upp-
teknir af viðsjárverðum átökum eigin aldar að þeir sýndu spenn-
andi baráttu mannsandans fyrr á öldum engan áhuga. í fyrstu fannst
mér æfingar Franz brjóta í bága við guðhræðslu hans. Og þó — nú
býður mér ýmislegt í grun. Ég verð að koma að því seinna.
34