Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Page 106
Jesse L. Byock
„Milliganga“
Félagslegar rætur íslendingasagna
Frásagnarlist Islendingasagna er mótuð af mikilvægum þáttum í samfélagi
þess tíma þegar þær voru sagðar og ritaðar og áhrifamátt sinn fyrr og nú eiga
þær einkum því að þakka hve raunsanna mynd þær gefa af sjálfu gangvirki
samfélagsins. Þessa staðhæfingu ætla ég að rökstyðja með því að kanna
fyrirbæri, sem ég nefni „milligöngu", og hlutverk þess í byggingu sagnanna.
Löngum hafa lesendur íslendingasagna og Sturlungu veitt því athygli að
hægt er að greina frásögnina sundur í þætti. Minni háttar atvik mynda
dálítinn söguþráð sem einatt fléttast inn í meiri háttar deilur milli ætta eða
einstaklinga. Margar af þessum minnstu frásögnum snúast um einhver
innansveitarmál, og við fyrstu sýn virðist endir einnar oft ekki vera í
miklum tengslum við upphaf þeirrar næstu. Bæði íslendingasögur og
sögurnar í Sturlungu eru að miklu leyti settar saman úr svona þáttum. Þar er
sagt frá eftirminnilegum átökum sem skiptu samfélagið máli. Heildargerð
sagnanna markast af því sem sögulegast þótti, þ.e.a.s. að „bændur flugust
á“. Gerð samfélagsins beindi frásagnarlistinni í ákveðna farvegi,1 og þetta
gat gerst vegna þess að fyrirbæri, sem ég nefni „milligöngu“ og átti mikinn
hlut að viðgangi samfélagsins, þótti gott söguefni.
Með milligöngu á ég við það þegar þriðji aðili kemur inn í deilu tveggja,
þannig að það hafi áhrif á gang mála. Mikilvægasta milliganga er umboð,
þegar maður tekur við máli af öðrum, oftast höfðingi af lægra settum manni,
en einnig getur verið um að ræða liðveislu af ýmsu tagi ellegar minni háttar
afskipti aukapersóna, svo sem fréttaflutning um illmæli eða hvöt til víga.2
Það er milliganga, þegar Njáll fer með mál Gunnars á þingi og veitir honum
lið, sama er að segja um það þegar Sámur Bjarnason tekur við máli af
Þorbirni frænda sínum í Hrafnkels sögu og fær síðan sjálfur lið af Þjóstar-
sonum. Milliganga er það líka þegar förukonur bera illmæli frá Hlíðarenda
að Bergþórshvoli eða þegar griðkona eggja Hrafnkel Freysgoða til dáða og
segir honum frá reið Eyvindar Bjarnasonar fram hjá garði hans.
Milliganga í deilumálum er í sjálfu sér ekki flókið fyrirbæri og hún kemur
fyrir í einhverri mynd í flestum þjóðfélögum. En íslenska goðaveldið var