Tímarit Máls og menningar - 01.02.1986, Síða 120
Tímarit Máls og menningar
gömlu embættismannastéttarinnar sem tókst að hrifsa til sín forystu lýð-
veldisins skömmu eftir stofnun þess. Þjóðernissinnar féllust á að gera æðsta
yfirmann keisarahersins, Yuan Shikai, að forseta lýðveldisins til að koma í
veg fyrir blóðugt borgarastríð. Hann lýsti yfir stuðningi við byltinguna en
strax og hann tók við embætti fór hann að styrkja persónuleg völd sín með
aðstoð embættismannastéttarinnar og ríkra landeigenda, sem óttuðust
eignaupptöku. Hann lét leysa upp her þjóðernissinna en efldi einkaheri sem
voru undir forystu íhaldssamra herforingja eða herfursta. Yuan Shikai
undirbjó meira að segja stofnun eigin keisaraættar en við það missti hann
stuðning herfurstanna sem lýstu margir yfir sjálfstæði stjórnsvæða sinna
tæpum fimm árum eftir stofnun lýðveldisins.
Það var ekki fyrr en eftir langvarandi innanlandserjur að þjóðernissinnum
tókst að sameina meirihluta Kína aftur undir stjórn sinni árið 1928, þremur
árum eftir að Sun Yatsen féll frá. Róttæklingar og kommúnistar, sem
störfuðu innan flokks þjóðernissinna á árunum 1925 til 1927, höfðu þá verið
hreinsaðir úr forystu þjóðernissinnaflokksins auk þess sem raunveruleg
völd á mörgum svæðum voru enn í höndum herfursta sem höfðu aðeins lýst
yfir málamyndastuðningi við þjóðernissinnastjórnina. Leiðtogar þjóðernis-
sinna, sem margir voru atvinnuhermenn, héldu áfram að fresta stórum hluta
þjóðfélagsumbótanna, sem þeir höfðu á stefnuskrá sinni, af ótta við nýtt
innanlandsstríð. Þeir létu sér nægja að styðja við bakið á innlendum iðnaði
og efla menntun en vanræktu skiptingu lands á milli bænda og uppbyggingu
raunverulegs lýðræðis.
Atvinnuleysi var gífurlegt, iðnverkalýður borganna bjó við örbirgð og
vinnudeilur voru algengar og stundum blóðugar. Loforð þjóðernissinna um
að losa Kínverja við þessa fylgikvilla kapítalískrar iðnvæðingar stóðust
greinilega enganveginn. Þjóðernissinnar nutu fjárhagslegs stuðnings iðnrek-
enda en margir þeirra voru í rauninni landeigendur sem höfðu fjárfest í
iðnaði.
Innrás Japana í Kína á fjórða áratugnum var enn ein hindrunin í veginum
fyrir því að þjóðernissinnar gætu hafið skipulega uppbyggingu draumaþjóð-
félagsins sem Sun Yatsen hafði lofað þjóðinni. Reyndar var hugsjónaeldur
þjóðernissinna þá mjög farinn að dofna og margir leiðtogar þeirra töldu eitt
höfuðmarkmið flokksins vera að tryggja að Kína yrði ekki kommúnisman-
um að bráð.
Kapítalismi eða kommúnismi?
Sá áróður kommúnista að þjóðernissinnar væru hlaupatíkur auðherra,
erlendrar heimsvaldastefnu og landeigenda fékk góðan hljómgrunn meðal
fátækra bænda og verkalýðs og atvinnuleysingja í borgunum. Kommúnistar
110