Tímarit Máls og menningar - 01.03.1999, Blaðsíða 77
PARMENÍDES KEMUR TIL AÞENU
„Og hverjar eru skyldur manna?“
„Að hlíta lögum þess samfélags sem þeir búa í, hversu heimskuleg
sem þau kunna að vera.“ Við þessi orð kraumaði Períkles af reiði, en
sagði ekkert. Sókrates hélt áfram: „Löghlýðni er æðsta borgaraleg
skylda sérhvers þegns.“
„Hvers vegna?“ Samtalið hafði þróast í eins konar spurningaleik,
sem öldungurinn hafði gaman af.
„Vegna þess að lögin halda samfélaginu saman og skilgreina það,
eins og hafið skilgreinir landið. Án laga mundi samfélagið liðast í
sundur og stjórnleysi taka við.“
„Og ber mönnum þá að fylgja lögunum, jafnvel þótt þau leiði þá út í
opinn dauðann?“
„Menn deyja þá í þeirri fullvissu að þeir hafi gert skyldu sína. Þá
deyja þeir sáttir.“
„En ef lögin stríða gegn samvisku manna? Ber þeim samt að hlýða
þeim?“
„Mönnum ber skilyrðislaust að fylgja lögunum. Ella gætu fáfróðir
menn notað hvað sem er sem fyrirslátt til að hlíta þeim ekki og kallað
það samvisku sína.“
„Fáfróðir? Hvers vegna segir þúfáfróðir? Þú átt væntanlega við hina
óprúttnu og ófyrirleitnu. Illa menn.“
„Illska manna stafar eingöngu af fáfræði,“ svaraði Sókrates að
bragði. „Hið illa er ekki til nema sem vanþekking á hinu góða og sanna
eðli mannsins.“
„En þarna ertu í mótsögn við sjálfan þig,“ skaut Anaxagóras að.
Hann iðaði í skinninu eftir að geta blandað sér í spaklegar umræður.
„Allir lærðir menn vita að illskan er andstæða góðleikans.“
„Það er þeirra álit. En að mínu mati stafar illskan af því að menn
hlýða ekki á innri rödd og fylgja ekki innri manni. Hlutverk viturra
manna er að upplýsa hina fáfróðu um eigið eðli. Viskan er eins og
vatnið. Hún flæðir frá einum manni til annars, frá hinum hærra
punkti til hins lægra.“
„Og hver er þá þinn innri maður, steinsmiður?“ spurði Parmenídes.
„Hver er lífsspeki þín?“
„Að vera trúr sjálfum mér,“ svaraði Sókrates án þess að hugsa sig
um. „Að vera góðhjartaður, sannsögull, nægjusamur og virða guðina,
ef þeir eru til.“
TMM 1999:1
www.mm.is
67