Tímarit Máls og menningar - 01.09.1999, Page 36
Kristín Viðarsdóttir
Kynlegir kvistir
Saga, kyn og kynhneigð í skáldsögunni Orlando eftir
Virginiu Woolf
Virginia Woolf (1882-1941) var einn af frumkvöðlum módernismans í bók-
menntum á Bretlandi og meðal helstu meðlima hins fræga hóps listamanna
sem kenndur var við Bloomsbury hverfið í London. Eftir hana liggja bæði
skáldsögur, smásögur, leikrit, dagbækur og fræðigreinar, auk þess sem hún
starfaði sem bókmenntagagnrýnandi hjá Times Literary Supplement allt frá
árinu 1905 nánast fram til dauðadags. Skáldsögur hennar Jacob’s Room
(1922) og Mrs. Dalloway (1925) eru taldar til brautryðjendaverka módern-
ismans en árið 1922 komu einnig út skáldsaga James Joyce, Ulysses og ljóða-
bálkurinn The Waste Land eftir T.S. Eliot. Woolf er meðal annars þekkt fyrir
svokallað vitundarstreymi í skáldskap sem sjá má í ofangreindum verkum og
fleiri sem á eftir komu, svo sem skáldsögunum To the Lighthouse (1927) og
The Waves (1931). Woolf er ekkisíður þekkt fyrir skrif sín um konur ogbók-
menntir, sérstaklega ritgerðina A Room of One’s Own (1929) sem er byggð á
fyrirlestrum sem Woolf hélt við kvennaháskólana Girton og Newnham í
Cambridge árið 1928, sama ár og skáldsaga hennar Orlando, a Biography
kom út. Ritgerðin kom út í íslenskri þýðingu Helgu Kress árið 1983
(Sérherbergi) og er eina bók Woolf sem þýdd hefur verið á íslensku.1
I Sérherbergi fjallar Woolf um tengsl kvenna og bókmennta á sérstæðan og
skemmtilegan hátt, meðal annars með því að beita fyrrnefndu vitundarflæði
ásamt beittri íróníu, og hefur bókin haft gífurleg áhrif á umræðu um konur
og bókmenntir allt fram á þennan dag. Sjá má vissar hliðstæður, bæði í stíl og
umræðunni um stöðu kvenna, með Sérherbergi og Orlando og mun ég fjalla
um sumar þeirra hér á eftir. I báðum þessum verkum setur Virginia Woolf
einnig fram hugmynd um það sem hún kallar „tvíkynja huga“, þótt hún
gangi mun lengra með þá hugmynd í Orlando þar sem persónan Orlando er
ýmist karl eða kona og upplifun hennar og kynhneigð ekki endilega í „sam-
ræmi“ við líffræðilegt kyn hennar hverju sinni. Þessi „kynlegi" sveigjanleiki
Orlando minnir um sumt á nýrri kenningar póststrúktúralískra fræði-
manna, sérstaklega það sem á íslensku hefur verið kallað „kyngervisusli“ en
34 www.mm.is TMM 1999:3