Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 46
ÁGÚST ÓLAFUR GEORGSSON
MEINSEMDIR OG
MANNDRÁPSBOLLAR
Heilsufar, mannskaðar og vinnuslys á íslenskum fiskiskútum
Fjöldi þátta gerir skipið að mjög sérstökum vinnustað. Fyrst og fremst er það
samfélag þar sem dvalist er allan sólarhringinn, þótt það eigi ekki við um öll
skip, sem að auki er f ljótandi og á stöðugri hreyfingu. Áhöfnin er tímabundið
einangruð frá „hinum stóra heimi“, fjölskyldu og vinum. Sum skip eru lengi í
burtu, t.d. frystitogarar, um þrjár til fimm vikur í einu, en önnur mun skemur
eða einn til sjö daga. Sjómenn á íslenskum fiskiskútum voru oftast um þrjár til
fjórar vikur í hverri veiðiferð en mest fimm til sex, eftir svæðum eða stærð skipa.
Engir möguleikar voru á einkalífi, en allt voru þetta karlmenn. Á hinn bóginn
hafa mannleg samskipti um borð verið mikil og margir í áhöfninni komu úr
sama byggðarlagi. Hugsanlega gat nándin þó orðið of mikil á köflum þar sem
engin leið var að komast í burtu eða draga sig út úr. Frístundavandamál þekktust
ekki enda var unnið á vöktum allan sólarhringinn. Langur vinnudagur á sjó er
að margra áliti jákvæður, þá er minni tími sem þarf að drepa, og á þannig þátt
í að skapa betra andrúmsloft um borð.
Vinnustaðir eins og skip á hafi úti hafa verið skilgreindir sem altækar
stofnanir (e. total institution) en það á einnig við um f leiri lokuð samfélög,
t.d. fangelsi, geðsjúkrahús og hjúkrunarheimili. Einkennandi fyrir slíkar
stofnanir er að þau veita sólarhringsþjónustu, eru bundin við afmarkaða
byggingu í lengri tíma, uppfylla f lestar mannlegar þarfir, lúta formlegri stjórn
og meðlimirnir öðlast svipaða reynslu. Talið er að altækar stofnanir geti
stuðlað að breytingum á andlegri líðan, aukið kvíða og vanlíðan, en jafnframt
sé hætta á að persónuleg einkenni glatist.1
1 Erving Goffman, Asylums. Essays on the social situation of mental patients and other
inmates (Garden City, New York: Anchor Books 1961).