Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 59
58 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Þessir sjómenn stunduðu að vísu línuveiðar og hefur þá verið meiri hætta á að
menn styngju sig á önglum, m.a. við beitningu, og meiri líkur á sýkingum.
Fingur- og handarmein hafa verið algeng í verstöðvum og er oft getið
um þau. Þannig segir að í Vestmannaeyjum vorið 1900 hafi verið mikið
um að „smámeiðsli, rispur og smástungur yrðu að illkynjuðum ígerðum og
fingurmeinum; þannig misstu 2 menn af fingrum sínum, sem drep hljóp
í, á öðrum eftir smástungu og á hinum eftir nær ósýnilega rispu.“46 Hvergi
virðast fingurmein þó hafa verið algengari en á Suðurnesjum, sögð þar
„mjög almenn“, enda f lykktist þangað gríðarlegur fjöldi aðkomumanna um
vetrarvertíðina.47 Aðeins eitt dauðsfall vegna meinsemdar í hendi á tímabilinu
1900–1909 er skráð og var það hjá sjómanni á opnum báti sem hafði stungið
sig á öngli í fiskiróðri. Fékk hann strax mikinn verk í höndina og bólgu sem
náði upp á handlegg og lést hann úr blóðeitrun eftir um fimm daga.48
Samkvæmt skýrslum héraðslækna hafa mislingar, taugaveiki, berkjubólga
(bronkítis) og sennilega einnig inf lúensa verið algengustu sjúkdómarnir
meðal íslenskra skútumanna. Aðrir sjúkdómar voru brjósthimnubólga,
skarlatssótt, hettusótt, heimakoma, holdsveiki, lungnabólga og berklar. Þetta
eru sömu sjúkdómar og hrjáðu Íslendinga almennt á þessum tíma og tengjast
því ekki fiskveiðum beint. Um mjög fá tilfelli er að ræða á framangreindu
10 ára tímabili eða samtals níu sjúklinga með mislinga, sjö með taugaveiki,
óviss fjöldi með inf lúensu en hinir sjúkdómarinir voru mun sjaldgæfari (1-3
tilvik fyrir hvern sjúkdóm allt tímabilið). Einn einstaklingur var skráður sem
alkóhólisti og þjáðist þar að auki af svefnleysi. Einu sinni er getið um faraldur
þegar margir (5) í áhöfninni á hákarlaskútunni Emmu lögðust í mislinga og
var skipið sett í einangrun og sótthreinsað í kjölfarið. Hins vegar er í blöðum
einstaka sinnum sagt frá ef komið var að landi með veika menn, í eitt skipti
nálega heila skipshöfn þegar kútter Milly lagðist að í Reykjavík með 17 eða
18 inf lúensusjúklinga um borð eftir átta daga veiðiferð. 49 Samkvæmt þessu
hafa farsóttir sem lögðu fjölda manns í rúmið í einu verið mjög fátíðar.
46 ÞÍ. Ársskýrsla frá 42. læknishéraði árið 1900. Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur
lækna + DI & II. 1900: Akureyri – Kef lavíkur. – ÞÍ. Skýrsla um heilsufar í
Kef lavíkurhjeraði 1909. Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur lækna + DI & II.
1909: Berufjörður – Kef lavíkur. Skýrslur A-G 1909.
47 ÞÍ. Skýrsla um heilsufar í Kef lavíkurhjeraði árið 1906. Skjalasafn landlæknis.
Ársskýrslur lækna + DI & II. 1906: Siglufjörður – Kef lavíkur.
48 ÞÍ. Skýrsla úr Siglufjarðarhjeraði um árið 1907. Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur
lækna + DI & II. 1907: Blönduós – Mýrdalshérað.
49 ÞÍ. Aðalskýrsla úr Þingeyrarlæknishjeraði árið 1904. Skjalasafn landlæknis.
Ársskýrslur lækna + DI & II. 1904: Reykjavíkur - Miðf jarðar. – Vestri 25. júlí
1904, bls. 150. – Vísir 10. apríl 1920, bls. 2.