Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 74
MEINSEMDIR OG MANNDRÁPSBOLLAR 73
og styrkjandi. Laxerolía og laxersalt voru hægðalyf og var hið síðar nefnda
jafnframt talið hitalækkandi. Laxerolía var einnig sett í stólpípu ásamt öðrum
vökva.101 Uppsölupúlver var notað til að koma uppköstum af stað eins og
nafnið bendir til, ef á þurfti að halda. Kínínpúlver eða kínín var helsta lyfið
til að lækka hita og var hrært út í eina matskeið af vatni áður en það var tekið
inn. Ópíumdropar voru verkjastillandi en þar að auki hafðir við krampa,
niðurgangi og uppköstum. Rabarberdropar voru hægðalosandi og þóttu
einnig magastyrkjandi en blanda af þeim og Hoffmannsdropum átti að
vera vindeyðandi. Dóverskammtar voru ópíumduft. Klóróformolía innihélt
ákveðið magn af ópíum og því verkjaeyðandi og var borin á útvortis.
Jónassen getur um tvær tegundir af heftiplástri, sænskan og enskan, og
var hann hafður til að halda saman sárum. Þann enska, sem getið er um í
reglugerðinni, þurfti að bleyta á annarri hliðinni áður en hann var lagður
við. Þvagpípa var notuð við þvagteppu og hefur því verið mikilvæg viðbót
við sjúkrabúnaðinn. Stólpípa var gefin við langvinnu hægðaleysi (harðlífi), ef
laxermeðul komu ekki að gagni eða sjúklingurinn gat ekki haldið neinu niðri.
Jafnvel var til í dæminu að mönnum væri sett stólpípa við kviðsliti o.f l.102
Sýnilegt er að framangreind lyf og lækningabúnaður hafa einkum komið
að gagni við að búa um sár, meðhöndla hægðatregðu, uppköst og niðurgang,
losa um þvagteppu, stilla verki og lækka hita. Önnur lyf voru ætluð við kvefi,
yfirliði, höfuðverk, krampa, gigt, mari, tognun, frostbólgum og vindgangi.
Hið einhæfa mataræði hefur boðið upp á ákveðna hættu á meltingartruflunum
og alltaf hefur mátt gera ráð fyrir slysum, t.d. skurðarsárum, og því afar brýnt
að geta leyst úr slíkum vanda.
Hinn 1. janúar 1925 gekk í gildi tilskipun um lyf og læknisáhöld í íslenskum
skipum.103 Fiskveiðar á skútum voru þá nánast liðnar undir lok nema á
fáeinum stöðum úti á landi. Þannig gengu aðeins 11 seglskip til veiða 1925,
eitt 1926, eitt 1927 og síðan ekki söguna meir. Skútur voru síðast gerðar út frá
Reykjavík 1919.104 Í tilskipuninni er kveðið á um að allir 20 lesta bátar eða
stærri, sem ekki eru í siglingum innan fjarða, skuli hafa tilteknar lyfjabirgðir.
bls. 150. - ÞÍ. Aðalskýrsla úr Þingeyrarlæknishjeraði árið 1900. Skjalasafn
landlæknis. Ársskýrslur lækna + DI & II. 1900: Reykjavíkur - Siglufjarðar. -
ÞÞ 5750, 6802, 8202.
101 J[ónas] Jónassen, Lækningabók handa alþýðu, bls. 267.
102 Sama heimild, bls. 131, 267.
103 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 149-155.
104 Hagskinna, bls. 316-317. – Seglskip þau sem gerð voru út árið 1925 voru frá
Akureyri, Bíldudal, Ólafsvík, Patreksfirði, Stykkishólmi og Þingeyri. 1926 og
1927 gekk ein skúta til veiða frá Stykkishólmi.