Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 203
202 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
sinni á Íslandi fyrr en Pálstóftir.
Ef litið er yfir þær upplýsingar sem til eru úr fornleifarannsóknum
á selminjum umhverfis Norður-Atlantshaf, er eitt af því sem vekur mesta
athygli hve margskonar staðirnir eru og byggingarnar margvíslegar. Þó má
sjá nokkurn mun á Pálstóftum annars vegar og tveimur af þeim stöðum
sem best hafa verið rannsakaðir hinsvegar, Svolset og Argisbrekku (Tafla 4).
Fyrst má líta á fjölda bygginga og hversu flóknar þær eru, en það er a.m.k.
tvennt sem getur leitt til þess að byggingar séu margar og flóknar. Staðurinn
getur hafa verið lengi í notkun eða umsvif þar mikil. Til dæmis eru mjög
mörg mannvirki bæði á Argisbrekku og Svolset, 17 á öðrum staðnum og 16
á hinum. Á báðum þessum stöðum stafar þetta af því að þessi mannvirki eru
ekki frá sama tíma. Á Svolset er staðurinn í notkun mjög lengi, því nær 1000
ár, þó að búsetan hafi verið árstíðabundin og verið geti að hún hafi staðið
með hléum. Á Argisbrekku var notkunartíminn aðeins þrjár aldir. Mahler
telur að ekki hafi nema 2-3 byggingar verið í notkun samtímis (Mahler
1991:68). Sú tala er í betra samræmi við þann húsafjölda sem algengastur er á
seljum á Norður-Atlantshafssvæðinu. Hins vegar má spyrja af hverju ný hús
voru reist fremur en eldri hús endurbætt eða endurbyggð – en það virðist
annars algengt á þessu tímabili. Staðurinn á Argisbrekku er í notkun á sama
tíma og síðasta skeið Svolsets. Hugsanlega er þetta endirinn á langri hefð
þar sem byggð var færð til fremur en að endurbyggja á sama stað, en sýnt
hefur verið fram á slíkt í láglendisbyggðum og á býlum í Norður-Evrópu (sjá
t.d. Gerritsen 1999). Önnur ástæða fyrir mun á mannvirkjum gæti stafað af
umfangi seljabúskaparins. Búast má við að auðugri býli með stærri hjarðir hafi
komið upp seljum með stærri eða fleiri byggingum, allt eftir stærð hjarða og
fjölda þess fólks sem sinnti skepnunum. Einnig gætu reyndar auðugri býli hafa
komið sér upp fleiri seljum og vel gæti það hafa verið hagkvæmara og betur
fallið til að nýta sumarbeitina. Eins gætu staðir með mörgum byggingum alveg
eins verið þannig til komnir að mörg minni býli hafi nýtt sama stað fyrir sel
sín. Dæmi um slíkt gæti verið í Skarðsseli í Reykjahverfi, en þar er óvenjustór
og flókinn minjastaður í dal þar sem sel eru mjög sjaldgæf (Birna Lárusdóttir
2006:60-61). Pálstóftir eru fremur smáar í sniðum borið saman við Svolset og
Argisbrekku, einkum þegar litið er á stærð bygginga. Þetta er sennilega vegna
lengdar notkunartíma og mannfjölda á staðnum en ræðst einnig af því hvers
konar iðja fór þar fram. Þó að rétt sé að almennt megi túlka allar þessar minjar
út frá seljabúskap og nýtingu á beitilandi til fjalla er ef til vill betra að skoða
þá fjölbreytilegu iðju sem fylgt getur nýtingu jaðarlandsvæða út frá líkani um
notkun „útstöðva“ eins og nefnt er í riti Øye.
Veiðar virðast hafa verið eitt af því sem menn fengust við á Pálstóftum, eftir