Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 260
UPP Á YFIRBORÐIÐ. 259
bændur vildu varðveita skóg og hafa þess vegna e.t.v. fækkað geitum og
svínum á 11. öld.
Í greininni sem ég hef aðra í röðinni fjalla höfundar, Guðrún Alda og Mjöll,
um bökunarhellur. Þær teljast hafa komið fram í Noregi um 1100 en á Íslandi
á 12. öld og hurfu hér fyrir 1500, kannski allmiklu fyrir 1500. Höfundarnir
spyrja: Af hverju var farið að nota bökunarhellur af þessu tagi og hvers vegna
var því hætt? Ollu breyttar matarvenjur? Tengdist þetta breyttum eldstæðum?
Var þetta aðeins skammært tískufyrirbrigði, eins konar mínútugrill miðalda?
Tengdist þetta innlendri kornrækt og endalokum hennar?
Þessi grein er fróðleg um notkun korns, brauðtegundir og bakstur. Þær
stöllur hafa safnað miklu efni um bökunarhellurnar og notkun þeirra og bera
fram spennandi spurningar. Svör þeirra eru mest nýjar spurningar en það þarf
þekkingu og rannsókn til að spyrja réttra spurninga og það hefur þeim tekist,
eða svo sýnist mér út frá eigin þekkingu á sögu umrædds tíma.
Kléberg er notað til grófrar tímasetningar, kléberg á fundarstað bendir
strax til tímans fyrir 1100. Ég velti fyrir mér hvort bökunarhellur verði
notaðar á sama hátt um tímann 1150 til 1450.
Í þriðju greininni fjalla Orri, Sigríður og Howell Roberts um sögu
verslunar út frá túlkun sinni á fornleifum á Gásum. Það er gömul hugmynd
að utanlandsverslun hafi verið í blóma þegar hún var í höndum Íslendinga
sjálfra en þegar hún komst á hendur útlendinga hafi orðið hnignun og
afturför, svo sem skortur nauðsynja. Utanlandsverslun taldist hafa verið afar
mikilvæg enda hafi Íslendingar framleitt fyrir markaði erlendis og flutt í
staðinn nauðsynjar til landsins. Höfundarnir benda á að þessar ályktanir
hafi verið gagnrýndar, í sagnfræðilegum skrifum, og bent þar á að frjáls
markaður hafi lítt komið við sögu, höfðingjar hafi stýrt versluninni, skipt
sér af verðlagi og helst hafi verið framleitt fyrir gjöldum og fyrir varningi
sem taldist nauðsynlegur. Megineinkennið hafi verið sjálfsþurftarbúskapur
og mjög takmörkuð utanlandsverslun. Höfundarnir láta uppgröft á
Gásum varpa ljósi á vægi verslunar á miðöldum og svara spurningum
sem sagnfræðingar hafa einkum fengist við. Í stuttu máli komast þau að
þeirri niðurstöðu að gagnrýnin muni vera réttmæt, utanlandsverslun hafi
verið hlutfallslega lítil, og varla skipt almenning miklu máli, og verið afar
lítil verslunarumsvif á Gásum. Hins vegar hafi utanlandsverslun á 17. og
18. öld verið öll önnur en á miðöldum, íslensk heimili hafi þá verið háð
innflutningi á neysluvörum, svo sem járni. Þetta held ég að sé allt rétt,
umskiptin urðu sennilega helst með þýskri verslun á 16. öld, landsmenn
vöndust aðflutningum á nauðsynjum og hættu t.d. að framleiða salt og járn
sjálfir. Þegar Danir komu á einokunarverslun voru Íslendingar líklega orðnir