Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Page 216
NUUSSUAQ – NORRÆN VEIÐISTÖÐ Á VESTUR-GRÆNLANDI? 215
feræringar eða sexæringar, hafa verið notaðir til fiskróðra og annarra veiða um
öll Norðurlönd allt frá víkingaöld og fram á þennan dag. Gera má ráð fyrir að
það hafi einmitt verið þannig bátar sem notaðir voru við veiðarnar í Norðursetu.
Kannski eru það einmitt þessar gerðir báta sem Halldór prestur hafði í huga þegar
hann sagði að það tæki 25 daga að róa norður í Norðursetu.
Leifar af bátum sem fundist hafa á Grænlandi sýna að þeir voru gerðir úr lerki
og greni.17 Þessar trjátegundir voru lítið notaðar til skipasmíða á Norðurlöndum
og er líklegast að bátar úr þeim hafi verið smíðaðir á Grænlandi úr rekaviði,
sem borist hafði um Íshafið frá Rússlandi. Sjálfsagt hafa bátar úr eik (eins og
Gaukstaðaskipið) og furu sem algengir voru á Norðurlöndum einnig verið
notaðir á Grænlandi, þó að enn hafi ekki fundist leifar af neinum slíkum. Eftir
að landnámsskipin eltust og gengu úr sér hljóta bátar og timbur til skipasmíða að
hafa verið harla dýrt. Þó að meira hafi verið af rekavið á Grænlandi á miðöldum
en nú er, hafa menn verið háðir timburinnflutningi til skipasmíða og til nota
á búum sínum. Þetta hefur verið talin ein af ástæðunum fyrir því að norrænir
menn á Grænlandi kusu að játast undir Noregskonung 1261. Með því treystu
þeir verslunarsamninga og réttindi yfir Norður-Atlantshaf.18 En það var ekki
bara timbur frá Evrópu sem notað var. Til er skrifleg heimild um grænlenskt
skip sem kom til Íslands 1347. Á því voru 18 manns og hafði það verið í
Marklandi (Labrador) til að sækja timbur, en villst af leið á heimleiðinni.19 Þó
að þetta sé aðeins ein heimild er hún vísbending um að norrænir menn á
Grænlandi hafi farið til Norður-Ameríku eftir varningi eins og timbri. Slíkir
leiðangrar hafa verið skipulagðir af valdamönnum í byggðunum.
Birgðastöðvar í norðlægum höfnum á miðöldum
Norrænir menn þekktu vel til rostungsveiða áður en þeir komu til Grænlands.
Þessi dýrategund hafði verið veidd við Norður-Noreg og kringum Hvítahaf.
Einnig voru rostungar á Íslandi um það leyti sem það var numið. Ekki hefur
fundist neitt hingað til sem bendir til að norrænir menn hafi notað skutul við
rostungsveiðar eins og eskimóar gerðu. Það þýðir að þeir urðu að fella dýrin á
landi eða á ísnum, þar eð særðir rostungar kafa og sökkva því þegar þeir drepast.
Þó getur þeim hafa tekist að vinna á fjölda dýra með bareflum og spjótum
þegar rostungarnir lágu uppi á ísnum eða á landi á stöðum þar sem þeir fara úr
hárum. Slíka staði kalla inúítar uglit.20
17 Gulløv o.fl. 2004, bls. 267.
18 Gulløv o.fl. 2004, bls. 268. Sjá annars Nansen 1925.
19 Arneborg 2000, bls. 305.
20 Norrænir menn hafa líklega veitt seli í net, en það er að sjálfsögðu óhentugt