Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 75
74 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Lyfin átti að geyma í „lyfjakistu, eða í þar til gerðum skáp með skúffum og
hillum“.105 Um fimm mismunandi kistur var að ræða eftir magni og innihaldi
og voru þær númeraðar í samræmi við það. Fór það eftir stærð og hlutverki
skipa hvaða lyfjakista var um borð. Mestar birgðir voru í farþegaskipum
en minnstar á litlum bátum í strandsiglingum. Fiskiskip með seglum eða
hjálparvél og seglum áttu að hafa lyfjakistu nr. 2 ef 14 eða færri væru í áhöfn.
Að meðaltali voru 12 í áhöfn fiskiskúta 1925 en 14 og 15 næstu tvö ár þar
á eftir. Viðurkennd „lækningabók fyrir farmenn“ skyldi fylgja hverri kistu
ásamt riti um varnir gegn kynsjúkdómum.106 Samkvæmt tilskipun um eftirlit
með skipum og bátum frá 1922 var ekki skylt að hafa lyfjakistu í skipum undir
20 rúmlestum.107
Lyf voru nú rúmlega tvöfalt f leiri en áður. Meðal nýrra lyfja til innvortis
brúks voru aspiríntöflur, brjóstdropar, hóstapillur, stoppandi magadropar, joð-
áburður, glycerín og kamillute. Vínandi (spiritus concentratus) var nú í fyrsta
skipti hluti af lyfjaforða til nota útvortis. Umbúðir og annar sjúkrabúnaður
var ennfremur mun ríkulegri og má þar t.d. nefna sárabindi af ýmsu tagi,
hita mæli, hægðaskál, svamp, naglabursta, lýsól, tanndropa, fingurhettur og
tvenns konar augnvatn. Stólpípa fylgdi aðeins lyfjakistum númer 3-5.108 Ekki
er ástæða til að rekja þetta nánar þar sem tilskipunin var sett jafn seint og raun
ber vitni. Þess má þó geta að árið 1930 var eftirlit með áfengi í lyfjakistum
hert með því að taka upp sérstaka áfengisviðskiptabók og átti að skrá hvern
skammt og afhendingardag í hana. Ekki var heimilt að endurnýja birgðirnar
oftar en á tveggja mánaða fresti.109 Gefur það vísbendingu um að vínandi
hafi einnig verið notaður „innvortis“ og í öðrum tilgangi en ætlast var til.
Næst voru settar reglur um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum 1935 og
margar síðan.110
Í dag búa fiskimenn á hafi úti við allt aðrar og betri aðstæður en á tímum
seglskipanna hvað varðar heilbrigðisþjónustu, lyf og læknisáhöld. Þekkingu
í læknisfræði hefur f leygt gríðarlega fram síðan þá og er lyfjakostur skipa í
samræmi við það. Þar að auki hafa skipverjar hlotið þjálfun í skyndihjálp og
105 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 149.
106 Sama heimild, bls. 149, 153. - Ekki er tekið fram hvaða lækningabók þetta var,
hugsanlega Lægebog for Søfarende sem gefin var út í Kaupmannahöfn 1920. Fyrsta
íslenska ritið um þetta efni var Farmannabók, lækningakver fyrir farmenn og aðra
sjómenn (Reykjavík: Skrifstofa landlæknis 1938).
107 Stjórnartíðindi 1922 A, bls. 165.
108 Stjórnartíðindi 1924 A, bls. 149-153.
109 Stjórnartíðindi 1930 A, bls. 33.
110 Stjórnartíðindi 1935 A, bls. 152-157.