Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 58
MEINSEMDIR OG MANNDRÁPSBOLLAR 57
úlnliðum sýnast því hafa verið nánast óþekktar, a.m.k. hafa menn ekki leitað
til læknis vegna þeirra. Hásetar á frönskum handfæraskútum munu þá hafa
fengið slæm sár um úlnliðina og gengu þau undir heitinu „Íslandskál“.41
Heimildarmenn geta um handarmein, sérstaklega ígerðir í fingrum, en
ekki er gert mjög mikið úr þessu og virðist sjaldnast um mjög alvarleg tilfelli
að ræða. Í skýrslum héraðslækna kemur fram að mjög fáir skútusjómenn hafi
fengið alvarlegar sýkingar í fingur, jafnvel lífshættulegar, en afar sjaldan þurfti
að taka framan af fingrum vegna þessa. Slík aðgerð var framkvæmd aðeins
einu sinni á þessum 10 árum, reyndar á Íslendingi og var þá komið drep í
sárið. Þannig sýkingum fylgdi iðulega mikill verkur og fingurinn bólgnaði
upp. Líklegt er að dregið hafi verið að fara til læknis til þess að tapa ekki
tíma frá veiðunum og reynt að leysa málið til sjós, en það á einmitt við um
framangreint tilvik.42 Dæmi er um að háseti á færeyskri fiskiskútu hafi verið
með fingurmein í 13 daga áður en siglt var með hann í land.43
Skráð fingur- og handarmein á innlendum og erlendum handfæraskútum
voru samtals 21, eða um tvö á ári á framangreindu tímabili. Eru þá talin með
naglgerðisbólga (hundshland), skurðir, sár, mar, inngrónar neglur, exem
og ígerðir. Þrátt fyrir þessi fáu tilvik er sennilegt að handarmein hafi verið
umtalsvert f leiri en getið er um í skýrslunum. Þeim hefur þá verið sinnt um
borð og hugsanlega voru þau einnig minni háttar. Til samanburðar má nefna
að mikill fjöldi erlendra síldveiðiskipa hélt til á Siglufirði á þessum árum og
fengu mjög margir í áhöfnum þeirra kýli eða fingurmein þegar þeir slægðu
síldina: „[E]f einhver rispa eða f lumbra var fyrir á höndunum á þeim, var eins
og allt úthverfðist á þeim, er síldarseltan og sjóseltan komust í sárin (blóðeitran)
og áttu sumir nokkuð lengi í þessu.“44 Hugsanlega hefur þó verið eitthvað með
síldina sem gerði það að verkum að mönnum var gjarnt að fá illt í fingurna,
t.d. beinin. Í þjóðháttasafninu er varðveitt frásögn tveggja vélbátasjómanna
frá um 1920–1940 og segir þar að margir hafi fengið handarmein sem gróf
í, eða blóðeitrun komst í, og því hafi verið nauðsynlegt að fara til læknis.45
41 Elín Pálmadóttir, Fransí biskví. Frönsku Íslandssjómennirnir (Reykjavík: Almenna
bókafélagið 1989), bls. 59.
42 ÞÍ. Aðalskýrsla úr Þingeyrarlæknishjeraði árið 1900. Skjalasafn landlæknis.
Ársskýrslur lækna + DI & II. 1900: Reykjavíkur - Siglufjarðar. – Sbr. ÞÞ 6857.
43 ÞÍ. Skýrsla úr 10. læknishjeraði um árið 1901. Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur
lækna + DI & II. 1901: Reykjavík - Siglufjarðar.
44 ÞÍ. Skýrsla um árið 1903 úr Siglufjarðarhjeraði. Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur
lækna + DI & II. 1903: Siglufjörður - Kef lavíkur.
45 ÞÞ 5176; 5703; 5750; 6020; 6145; 6857; 6941.