Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Side 60
MEINSEMDIR OG MANNDRÁPSBOLLAR 59
Ef smitandi sjúkdómur kom upp í skipi var það nær undantekningarlaust
sett í einangrun, sóttvarnarf lagg haft uppi, og allar samgöngur bannaðar við
land. Skipin voru einnig sótthreinsuð, að svo miklu leyti sem það var unnt,
þótt það væri ekki alltaf gert af einhverjum ástæðum. Föt sjúklinga virðast
líka hafa verið sótthreinsuð, a.m.k. í einhverjum tilvikum. Berklar voru
mikill vágestur á þessum tíma og lengi síðan, en samt var ekki óheimilt að
ráða tæringarveika menn á skip. Samkvæmt siglingalögum nr. 56/1914 var
skipstjóra heimilt að reka þá úr áhöfn sinni sem þjáðust af sýfilis og frá 1930
einnig þá sem haldnir voru smitandi sjúkdómum sem hætta stafaði af fyrir
aðra um borð. Jafnframt bar skipstjóra að koma sjúklingnum til skoðunar hjá
lækni. Með lögum til varnar gegn berklaveiki 1921 var reynt að koma í veg
fyrir smit án frelsissviptingar nema í neyðartilvikum.50 Þess ber þó að geta að
á árunum 1900-1909 var aðeins einn íslenskur skútusjómaður skráður með
berklaveiki og sennilega enginn með lekanda eða sýfilis. Það þótti að vísu
mikil skömm að vera með kynsjúkdóm og þess vegna voru menn tregir að
leita sér hjálpar hjá lækni.
Fyrir kom að menn brenndust á höndum ef mikil áta var í sjónum eða
þjáðust af sinaskeiðabólgu, sem er álagseinkenni eða sjúkdómur af völdum
ein hæfrar vinnu. Þá kunna skipverjar að hafa fundið fyrir einkennum í
herðum, handleggjum og baki, svo og vöðvabólgu. Margir þoldu ekki mikla
kaffi drykkju og rúgbrauðsát enda urðu þeir veikir í maganum eða fengu
brjóstsviða. Sumir reyndu því að fá hveitibrauð í staðinn en það gat stundum
verið erfitt. Nokkrir þoldu heldur ekki saltkjötið sem boðið var upp á.51
Lélegir fætur er atvinnusjúkdómur sem virðist hafa hrjáð allmarga um
borð en ástæða þess voru hinar miklu stöður við fiskidráttinn. Halli sem var
á seglskipunum er sérstaklega tilgreindur sem ástæða.52 Að standa og halda
50 Stjórnartíðindi 1914 A, bls. 95-96. - Stjórnartíðindi 1930 A, bls. 89-90. - Jón
Ólafur Ísberg, Líf og lækningar. Íslensk heilbrigðissaga (Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag 2005), bls. 192-194. – ÞÍ. Ársskýrsla úr Þingeyrarhjeraði fyrir
árið 1908.
51 ÞÞ 5435; 5437; 5446, 6145. - Sigurjón Einarsson, Sigurjón á Garðari, bls. 41.
– Engir Íslendingar hafa leitað til læknis vegna maga- eða meltingarsjúkdóma
1900-1909. Það er þó sagt með þeim fyrirvara að ekki er hægt að sjá þar hvaða
sjúklingar voru sjómenn í Reykjavík og ekki heldur í skýrslum sjúkrahúsa. (ÞÍ.
Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur lækna + DI & II. 1900–1909). Þetta gefur samt
vísbendingu um að alvarlegir sjúkdómar af þessu tagi hafi verið afar fátíðir. Hins
vegar er ljóst af frásögn heimildarmanna að veikindi í maga hafa verið þekkt þótt
ekki hafi verið leitað til læknis. Til samanburðar má nefna að hjá frönskum og
færeyskum sjómönnum var að meðaltali skráð um eitt slíkt tilfelli á ári.
52 Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Við sem byggðum þessa borg. 2. b. Endurminningar