Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 57
56 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Skipverjar þoldu þetta mikla álag á hendurnar misjafnlega vel:
Menn áttu erfitt með að klæða sig þegar að þeir komu fram úr kojunni,
þá voru þeir svo stirðir í höndunum. Svo þegar þeir fóru að blotna þá
fór þetta að lagast, fundu ekki fyrir því. Sumir sváfu með sjóvettlinga
á höndunum á nóttunni til þess að hafa raka á höndunum. Þetta var
vandamál, sérstaklega á sumrin, og einnig var þetta á togurunum. ...
Það voru ekki allir, sem höfðu góðar hendur í þá daga.35
Margir notuðu hland í lækningaskyni, en þá pissuðu menn á hendurnar á sér
til þess að gera þær mjúkar og liðugar eða til að hamla gegn ígerð.36 Hland var
notað til þvotta hér á landi frá fornu fari og var vitneskja þar að lútandi á allra
vitorði.37 Hlandið hafði dauðhreinsandi og læknandi áhrif, skolaði burt salti og
hitaði húðina. Sumir þvoðu viðkvæmar hendur í steinolíu og stundum einnig
úr laxerolíu eða nugguðu þær með lifur og galli. Aðeins eitt þekkt dæmi
er um að hásetar hafi borið feiti á hendur sér, og lagði skipstjóri hana til.38
Sár á úlnliðum voru mjög algeng en þau stöfuðu af núningi frá olíubornum
léreftsermum sem notaðar voru til hlífðar við færið. Við þessu var talið gott
að nota armbönd úr eir eða kopar vegna spanskgrænunnar sem myndast á
yfirborði þessara málma. Þeir sem ekki höfðu ráð á slíku vöfðu tjörubornu
bandi um úlnliðinn, svo kölluðu bols.39 Ígerðir í úlnlið virðast hafa verið afar
sjaldgæfar, ef marka má svör heimildarmanna, og eru aðeins nefndar í eitt
skipti. Athugun á skýrslum héraðslækna á 10 ára tímabili, 1900–1909, en þá
voru veiðar á skútum í hámarki, bendir til hins sama. Samkvæmt skýrslunum
leituðu sjómenn á Íslandsmiðum, jafnt innlendir sem erlendir, aldrei til læknis
vegna þannig ígerða, nema ef vera skyldi í Reykjavík, en þar var ekki hægt
sjá hvaða íslenskir sjúklingar voru fiskimenn.40 Alvarlegar sýkingar í sárum á
35 ÞÞ 5437. Sbr. ÞÞ 5212.
36 ÞÞ 5212; 5434; 5437; 5703; 5719; 5772; 5787; 6145; 6941; 7019; 7183.
37 Sbr. Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir, bls. 31.
38 ÞÞ 8202.
39 ÞÞ 6941; 8202.
40 ÞÞ 5438. - ÞÍ. Skjalasafn landlæknis. Ársskýrslur lækna + DI & II. 1900–1909. – Í
Reykjavík er nánast aldrei greint frá einstökum tilfellum heldur er um heildaryfirlit
að ræða. Skýrslur af landsbyggðinni eru því mun nákvæmari hvað þetta snertir
enda um miklu lægri íbúatölu að ræða á hverjum stað fyrir sig. Í skýrslunum er
einnig getið um þegar komið er í land með slasaða eða veika sjómenn. Þar að auki
eru skýrslur fyrir sjúkrahús St. Jósefssystra á Fáskrúðsfirði 1903, franska spítalann á
Fáskrúðsfirði 1904-1906, franska spítalann í Reykjavík 1906-1907, Landakotsspítala
1903-1905, sjúkrahúsið á Patreksfirði 1905 og sjúkrahúsið á Ísafirði 1906.