Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Qupperneq 85
84 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Við höfum lifað hugsunarlaust í þeirri blindu örlagatrú, að fiskveiðar
verði ekki stundaðar hjer við land á bátum eða þilskipum (seglskipum) án
þessa mikla manntjóns, það sje óviðráðanlegt. Við verðum að kasta þessari
villutrú og leita skynsamlegra úrræða.145
Eins og fyrr segir virðist skipaskoðun hafa verið verulega ábótavant framan af
og styður það álit Guðmundar að hinir tíðu skiptapar hafi einkum stafað af
lélegum og illa útbúnum skipum. Skúturnar voru keyptar notaðar frá útlöndum
og kunna sumar þeirra að hafa verið veikburða frá byrjun og fljótlega þarfnast
viðhalds. Hugsanlega spöruðu einhverjar útgerðir við sig viðgerðakostnað af
fjárhagslegum ástæðum, en vitað er að skipstjórar í Reykjavík kvörtuðu yfir
lekum og fúnum skipum. Heimildarmaður segir þannig frá:
Arney var kútter, um 60-70 tonn, sæmilegt sjóskip, en orðin mesti ræfill
og aumingi. Til dæmis þegar að veltingur var og einhver læti, að þá
var, eftir því hvernig hún valt, að þá kom rifa í lúkarsgólfið, í fjalirnar,
svoleiðis að það hefði verið hægt að stinga fingrunum niður á milli. Og
þegar, á hinni veltunni, þá pressaðist það svo saman, að vatn kom upp,
síaðist úr viðnum. Svo það sýndi, að hún var ekki traust eða sterk.146
Fjöldi sjódrukknaðra karla lækkaði á tímabilinu 1911-1940, en aðeins um 14%,
og má því ljóst vera að önnur atriði hafa ekki skipt minna máli, sérstaklega
stormar og vond veður. Þar að auki bættust við erfiðleikar að stjórna
vélarlausum skipum við óhagstæð skilyrði. Þá bendir ýmislegt til að margir
hafi haft ofurtrú á kútterunum og litið á þá sem eins konar „sjóborgir“.147
Samkeppni á milli skipa við veiðarnar virðist jafnframt hafa ýtt undir óvarkárni
og kæruleysi þrátt fyrir ótryggar veðurhorfur.148
Spyrja má hvort rekja megi hinar tíðu drukknanir að einhverju leyti til
áhættusamrar hegðunar eða lífsstíls hjá sjómönnum. Örlagatrú var lengi
áberandi í trúarlífi þjóðarinnar, samanber orðtakið „enginn getur sín forlög
f lúið“, en í henni var m.a. fólgið að menn létu „skeika að sköpuðu“.149 Þetta
er afstaða sem endurspeglar ákveðið kæruleysi og ýtir undir óvarkárni.
145 G[uðmundur] Björnsson, „Mannskaðar á Íslandi“, bls. 68.
146 ÞÞ 5439.
147 Sveinbjörn Egilsson, „Skólaskip“, Ægir 19 (1926), bls. 218-219.
148 Sbr. Matthías Þórðarson, Litið til baka. Endurminningar (með myndum). 2. b.
Þroskaárin: Mælingar, landhelgisgæzla, rekstur fiskiveiða o.f l. (Reykjavík: Leiftur
1947), bls.102. – „Skipskaðarnir“, bls. 194.
149 Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir, bls. 391-393.