Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 259
258 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
að velta fyrir sér greininni og hvort það eigi kannski að hefja nám í henni.
Líka er hún heppileg fyrir fólk í skyldum greinum, eins og sagnfræðinga
sem fást við miðaldir og þurfa að bera nokkurt skynbragð á fornleifafræði.
Enn fremur ætti hún að vera gagnleg fjölmiðlamönnum sem fjalla um
fornleifafræði í störfum sínum og vilja kynnast nýjungum í greininni og
nýjum uppgötvunum sem gaman væri að miðla til almennings.
Ég mun fjalla nokkuð um fyrrnefndar sex greinar og vík að öðrum eftir
því sem þessar helstu greinar gefa tilefni til. Í greininni sem ég nefni hina
fyrstu segja höfundarnir, Gavin Lucas og Howell M. Roberts, stuttlega frá
rannsóknum á fjórum býlum, Hofstöðum, Reykjavík (Aðalstræti 14-16),
Sveigakoti og Vatnsfirði. Þeir útskýra nútímatækni í grefti sem er fólgin í
að grafa burtu hvert lag fyrir sig. Þessi aðferð leiddi til að víkingaaldarskáli
lá fyrir í heild í Reykjavík, hafði ekki verið spillt eða rofinn með skurðum
og þannig mokað burt að hluta. Merkilegt þykir mér að sjá að skálinn telst
hér vera frá 890-1000 en fram að þessu hefur verið miðað við 930-1000.
Hann er þá eftir allt saman landnámsskáli.
Forvitnileg er lýsing þeirra félaga á rannsóknum fornra húsa og að hverju
áhuginn beindist á hverjum tíma. Sagnahyggja olli t.d. miklum áhuga á að
grafa upp hús út frá sögum, t.d. á Bergþórshvoli vegna Njálu. Svo vaknaði
áhugi á gerðfræði, á formi og lögun húsa, og var stefnt að samanburði við
það sem tíðkaðist erlendis; íslenski landnámsbærinn reyndist afkomandi
norðurevrópskra járnaldarlanghúsa og íslenski torfbærinn taldist hafa
þróast frá skála víkingaaldar. Þetta var einkennandi frá 1943 og fram yfir
1980. Núna beinist athyglin mjög að hlutverki húsa eða notkun þeirra.
Rannsókn dýra- og plöntuleifa getur verið fjarska gagnleg í því sambandi.
Þá víkja þeir að nýjum viðhorfum sem birtast í því að ekki þykir nægja
að grafa hús aðeins að innan, leitað er út fyrir veggina. Nýjast er svo að leita
út fyrir bæjarstæðin, kanna umhverfi og landshætti, rannsaka marga staði
í senn, og þá þverfaglega, og bera saman. Enn fremur hefur öll nákvæmni
aukist með sigtun, fleytingu, smásjárathugunum og efnagreiningu.
Ekki nefna þeir það sem var áður fleygt að sumir græfu ekki niður á
óhreyft og græfu jafnvel ekki upp gólflög. „Þið grafið ekki nógu djúpt“,
sagði Benedikt frá Hofteigi þegar rætt var af hverju fyndust ekki ummerki
eftir gelískt fólk hérlendis, fyrir komu norrænna manna, og þar með
ummerki eftir papa.
Þeir félagar fullyrða að hinar nýju rannsóknir, sem þeir fjalla um, breyti
sýn á líf fyrstu kynslóða í landinu. Ábendingar af þessu tagi snúa einkum
að Mývatnssveit þar sem fundist hafa vísbendingar eða óræk vitni um
að veiðibann hafi verið á öndum, að fiskur hafi flust frá sjávarsíðu og að