Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Qupperneq 73
72 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
að brennivín og öl hafi verið hluti af forða fiskiskipa, a.m.k. sums staðar,
áður en farmannalögin voru sett. Þetta kemur fram í bréfi landshöfðingja
til amtmannsins yfir suður- og vesturamtinu, dagsett 1. desember 1886, og
virðist þá ekkert nýtt við að vínföng hafi heyrt til vistforðans.96 Áfengisneysla
um borð mun ekki hafa verið vandamál nema einna helst á hákarlaskipum.
Drykkjuskapur áhafna á handfæraskútum er einkum nefndur í sambandi
við upphaf og lok vertíðar og ferðir í land, en algengt var að menn notuðu
tækifærið til að hella í sig. Lög um algert áfengisbann gengu í gildi árið 1915,
en áfram var unnt að verða sér úti um áfengi í einhverjum mæli, t.d. brugg,
sprútt og svo kallað „læknabrennivín“ eða litla skammta af hreinum spíra.
Sala á léttum vínum var heimiluð á ný 1922 og var banninu loks af létt að
fullu 1935 nema á bjór.97
Hér verður nánar gerð grein fyrir umræddum lyfjum og til hvers þau voru
ætluð, en stuðst er við alþýðlega lækningabók frá þessum tíma eftir Jónas
Jónassen þáverandi landlækni.98 Salmíakspíritus var meðal annars ætlaður
til að vekja fólk úr yfirliði og var glasinu sem hann var í þá haldið við nef
eða hann borinn á gagnaugu. Lyfið var einnig notað við höfuðverk og
smurt á hvirfil eða gagnaugu. Það var ennfremur talið gott við frostbólgu
í útlimum þynnt með vatni.99 Sápuspíritus, sem búinn var til úr lýsissápu,
kamfóru og spíritus, var talinn verkjaeyðandi og hafður við gigt, mari, tognun
o. f l. Klórkalk var sótthreinsandi og mun hafa verið haft til handþvotta.
Karbólsýra var einnig sótthreinsandi og m.a. notuð til að hreinsa sár. Álún
var notað til að hamla gegn blæðingum og við niðurgangi, leyst upp í vökva
og drukkið. Kamfórudropar og Hoffmannsdropar voru í f lokki „upplífgandi,
fjörgandi og styrkjandi“ lyfja en kamfórudropar voru einnig hafðir við kvefi,
uppköstum og til að koma út svita.100 Kínadropar voru bæði hægðastemmandi
96 Stjórnartíðindi 1886 B, bls. 151.
97 Gils Guðmundsson, Skútuöldin. Önnur útgáfa aukin. 2. b. (Reykjavík: Örn og
Örlygur 1977), bls. 163-164. - M[arkús] F. Bjarnason, „Nauðsyn og nytsemi
farmannalaganna I“, Ísafold 20. janúar 1894, bls. 9. - Jónas Árnason, Tekið í
blökkina, bls. 51-52. – Oddur Valentínusson, „Fyrsta sjóferð mín á þilskipi“,
Sjómannablaðið Víkingur 14 (1952), bls. 213-215. - Ágúst Ólafur Georgsson,
„Sunnudagur í landi, sætsúpa til sjós“, bls. 81-82. – „Mér fannst ég finna til“, 3.
hluti, Lesbók Morgunblaðsins 25. ágúst 1974, bls. 2.
98 J[ónas] Jónassen, Lækningabók handa alþýðu á Íslandi (Reykjavík: 1884), bls. 456-
473. – Bók þessi er sögð hafa komið mörgum að gagni (Steingrímur Matthíasson,
„Dr. J. Jónassen landlæknir og frú hans“, Óðinn 1. nóvember 1906, bls. 58-59).
99 Heilbrigðistíðindi, samin og kostuð af Jóni Hjaltalín 1 (1870-1871), bls. 40.
100 J[ónas] Jónassen, Lækningabók handa alþýðu, bls. 182. – Carl-Magnus Stolt,
Kaos och kunskap. Medicinens historia till år 2000 (Lund: Studentlitteratur 1997),