Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 91
90 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
lengi höfðu verið óstarfhæfir eða þjáðust af sýfilis. Teldist viðkomandi sjálfur
valdur að slysi eða veikindum sínum fékk hann aðeins borgað fyrir þann tíma
sem hann var í þjónustu skipsins og var heimilt að draga hjúkrunarkostnað frá
launum hans. Þeir sem hvorki báru neina sök í þessum málum né voru með
kynsjúkdóm og ekki hafði verið vikið úr skiprúmi héldu fullum launum í
veikindum sínum í fjórar vikur. Allur sjúkrakostnaður greiddist af útgerðinni.
Við dauðsfall giltu sömu reglur um kaup manna og skipstjóra hefðu þeir ekki
áður glatað rétti sínum til launa, samanber það sem fyrr segir. Létist einhver
úr áhöfninni sökum slysa eða veikinda annaðist útgerðin allan kostnað vegna
hjúkrunar og jarðarfarar.169 Þar sem laun háseta byggðust eingöngu á þeirra
eigin afla er spurning hvort þeir hafi fengið kaup í veikindum sínum. Öðru máli
kann að hafa gegnt með skipstjóra sem höfðu mánaðarkaup og að auki ákveðna
prósentu af heildarafla skipsins. Stýrimenn höfðu einnig mánaðarlaun að hluta.
Í sjómannalögum nr. 41/1930 eru svipuð ákvæði og að framan greinir.170
Meginstofn siglingalaganna frá 1914 stóð allt til ársins 1963.
Lög um líftryggingu fyrir fiskimenn á þilskipum gengu í gildi 1. janúar
1904. Þetta voru fyrstu lög sinnar tegundar hér á landi og höfðu því mikla
þýðingu. Hin tíðu sjóslys réðu áreiðanlega mestu um setningu laganna. Um
skyldutryggingu var að ræða og átti hver skipverji að greiða 15 aura á viku
á vetrarvertíðinni en 10 aura á vor- og sumarvertíð. Útgerðarmönnum var
gert að greiða jafnháa upphæð á móti og voru gjöld þessi lögð í sérstakan
vátryggingarsjóð. Hrykki sjóðurinn ekki fyrir útgjöldum lagði landssjóður
fram þá upphæð sem á vantaði, þó ekki hærri en 15 þúsund kr. á ári, og axlaði
þar með ákveðna ábyrgð auk þess að hafa yfirumsjón með sjóðnum. Fjölskyldu
hins látna voru greiddar 100 kr. á ári næstu fjögur árin frá dánardægri. Það
jafngilti 33 dagslaunum verkamanns í Reykjavík en 66 á Eyrarbakka, þar sem
kaupið var lægra, og hefur efnalítið fólk munað um þessa upphæð þótt hún
væri ekki há.171 Útgerðarmenn og sjómenn greiddu iðgjöldin að jöfnu. Líða
þurftu sex mánuðir frá því að síðast spurðist til skips eða skipshafnar áður en
hún var úrskurðuð drukknuð en fyrr var ekki hægt að greiða út bæturnar.172
Árið 1909 var lögunum breytt og náði tryggingin nú til allra sjómanna, einnig á
fjórrónum árabátum eða stærri.173 Frá og með 1918 voru einnig greiddar bætur
fyrir örorku (20% og hærri), mest 2.000 kr. Létist hlutaðeigandi innan árs frá
169 Sama heimild, bls. 95-96.
170 Stjórnartíðindi 1930 A, bls. 88-90.
171 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 230-232. - Hagskinna, bls. 608-609. - Sbr. Bjarka 28.
ágúst 1903, bls. 2.
172 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 230-232. - Stjórnartíðindi 1904 B, bls. 5-6.
173 Stjórnartíðindi 1909 A, bls. 272-277.