Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 177
176 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Ljóst er að spýtan hefur ekki lent undir hellunni af tilviljun. Henni hefur
verið komið fyrir þarna til að gegna hlutverki verndargrips af einhverju tagi, en
rúnaletrið var talið hafa mikinn verndarmátt. Elsta dæmið um það er sennilega
rúnastafrófið á steinhellu í grafhýsi frá 5. öld á Gotlandi. Rúnaletrið sneri
inn og gæti hafa átt að koma í veg fyrir að haugbúi slyppi út eða haugbrjótar
inn.13 Rúnaletrið var einnig oft skorið á skartgripi, brýni, kamba, snældusnúða
og rúnakefli af ýmsu tagi. Á rúnakefli, sennilega frá 16. öld, sem fannst á
Bergþórshvoli 1893, er rúnastafrófið og hin öfluga sator arepo-særing.14
Ef til vill hefur rúnakef lið undir fiskasteininum átt að tryggja nægan fisk
á hellunni og/eða halda illum öf lum eða þjófum frá svæðinu. Ekki hefur
mér hingað til tekist að finna neina hliðstæðu við þennan fund hvorki í
Noregi né annars staðar.15
Snældusnúðurinn frá Urriðakoti
Við þessar ristur frá Alþingisreitnum bætist máður snældusnúður sem fannst
við fornleifarannsóknir á mannvistarleifum við Urriðakot í Garðabæ sumarið
2010, en þar var búið fram á 6. áratug síðustu aldar. Snúðurinn fannst,
samkvæmt Ragnheiði Traustadóttur fornleifafræðingi, í veggjahleðslu sem
sennilega er frá upphafi 13. aldar en snúðurinn gæti hafa fylgt torfstungu og
verið eldri. Ristan er mjög máð og hefur því snúðurinn augljóslega verið
lengi í notkun. Hann er vel gerður og áferðarfallegur. Efnið er brúnn eða
grænleitur sandsteinn sennilega úr Esjunni. Hann er um 6 cm í þvermál,
kúptur á annarri hliðinni. Þykktin er 2,2 cm, gatið er 1,5 cm í þvermál.
Á slétta f letinum eru leifar af rúnaristu. Tvær f-rúnir, önnur spegluð, eru
mjög skýrar, þær eru jafn háar og hringurinn er breiður, eða 2,2 cm. Til vinstri
við spegluðu f-rúnina eru tvö strik sem hallast saman við gatið, því er ekki
hægt að útiloka að þetta séu leifar af u-rún (U). Til vinstri við þessi strik er
ennþá eitt, en neðri (efri?) helmingur þess er útmáður. Frá þessum legg gengur
stutt strik skáhallt niður á við til hægri. Hér gæti verið um að ræða leifar af
n-rún (N). Eftir það er hugsanlega hægt að greina leifar af nokkrum rúnum,
en greinilegur leggur stendur andspænis f-rúnunum tveim. Engar áreiðanlegar
leifar af kvisti eru sjáanlegar. Eftir það eru tveir leggir sjáanlegir og e.t.v. f leiri
fram að hægri f-rúninni. Mér virðist sennilegt að rúnir hafi upphaf lega verið
ristar allan hringinn. Ef til vill væri hægt að sjá meira í smásjá, en ekki er þó,
að mínu mati, mögulegt að lesa f leiri rúnir með vissu. Þar sem svo fáar rúnir
eru varðveittar er ekki hægt að skera úr um af hvaða tagi ristan hefur verið,
sennilegast þó að á snúðinn hafi verið rist nafn eigandans og/eða rúnastafrófið,
f-rúnirnar tvær gætu einnig verið fangamark eigandans.