Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2011, Blaðsíða 153
152 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
Síðustu dæmin úr annálum og alþingisbókum eru frá öðrum áratug 18.
aldar. Í annálum er síðast getið um hvalfangara 1701 en í alþingisbókum er
síðast nefndur reki frá erlendum hvalföngurum árið 1717. Ekki er kunnugt
um hvalfangara á landi eftir 1712 en þá stöðvaði Oddur lögmaður Sigurðsson
tilraun Spánverja til að versla í Grundarfirði (Helgi Þorláksson 2003, bls. 100).
En vísbendingar um hvalveiðar hér við land er að finna í heimildum öðru
hverju út 18. öld (Trausti Einarsson 1987).
Hvalveiðistöðin á Strákatanga
Á Selströnd í norðanverðum Steingrímsfirði er lítil vík, Hveravík, og fyrir henni
miðri er lítill tangi sem er nefndur Strákatangi. Hveravík hét áður Reykjarvík
en nafninu var breytt. Í botni víkurinnar er svolítið graslendi og þar stendur
nýbýlið Hveravík sem byggðist á 20. öld. Víkin sjálf er skjólgóð og grunn
vestan megin en dýpkar svo smátt og smátt til austurs. Austan megin í víkinni
er dýpt hennar um 30 metrar og því ákjósanlegt viðlegupláss fyrir stærri skip.
Strákatangi sjálfur er um 500 metrar á lengd og 200 metrar á breidd og
liggur eins og víkin frá norðri til suðurs. Norðaustan megin á tanganum eru
fjórar rústir sem liggja í röð eftir ströndinni. Þrjár rústir standa í einum hnapp
en fjórða rústin er í talsverðri fjarlægð frá hinum þremur. Utar á tanganum
eru fleiri rústir, tvö naust, stór hringlaga rúst og fjórar grafir. Á tímabilinu
frá 2005–2011 voru rústirnar nyrst á tanganum grafnar upp og tvær grafir
en könnunarskurður var grafinn í hringlaga rústina utarlega á tanganum.
Nyrstu rústirnar reyndust vera leifar hvalveiðistöðvar. Hringlaga rústin var
steinhlaðinn lýsisbræðsluofn og grafirnar voru kuml úr heiðni.
Hveravíkur og hvalveiðistöðvarinnar á Strákatanga er getið í Ferðabók
Olaviusar frá seinni hluta 18. aldar en ljóst er af þeirri heimild að höfundur
var ekki viss um notkun stöðvarinnar eða hverjir byggðu hana:
Í Reykjavík, lítilli vík norðanvert við Steingrímsfjörð, sjást enn tóttir
fjögurra gamalla verzlunarhúsa og kringlótt eldstæði, hlaðið úr tigul-
steini, sem notað hefur verið til lýsisbræðslu. Halda menn, að þetta
séu minjar eftir Íra og að gömul búð af steini í svonefndri Spönskuvík
skammt frá Reykjavík hafi heyrt til spönskum hvalföngurum. Því er
einnig trúað, að erlendir farmenn hafi siglt á höfnina Paradís, og því
til sönnunar segja menn, að þar hafi farizt skip, en skipsmenn höfðu
áreitt fátæka ekkju þar í nágrenninu, og er sagt, að enn sé að reka úr
skipsflakinu með S, V og SV-vindum (Ó. Olavius 1964, bls. 239).