Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 5
Forspjall
Dagana 28.-30. apríl 1989 var haldin ráðstefna um íslenskar fornbókmenntir í
ráðstefnusölum ríkisins, Borgartúni 6, að frumkvæði þeirra sem þetta rita og
með nokkrum fjárstuðningi frá Menntamálaráðuneytinu. Á ráðstefnunni fluttu
18 fræðimenn erindi um fornbókmenntanna aðskiljanlegar náttúrur, en þó var
megináherslan lögð á að skoða bókmenntalega þætti þeirra, skáldskapargildi og
listræn einkenni. Af þessu dró ráðstefnan nafn sitt, Skáldskaparmál. Sérstakur
heiðursgestur á ráðstefnunni var Jakob Benediktsson, einn fjölmenntaðasti
fræðimaður íslenskur, jafnt í klassískum fræðum sem íslenskum, og flutti hann
inngangslesturinn.
I boðsbréfi til ráðstefnunnar sagði meðal annars:
„Það er mál manna að á undanförnum árum höfum við íslendingar verið
eftirbátar erlendra fræðimanna við rannsóknir á bókmenntaarfi okkar. Ástæðan
kann að vera sú að hér hefur handritafræði setið í öndvegi en önnur sjónarmið
síður átt upp á pallborðið. Traustar textarannsóknir eru vissulega sú undirstaða
sem allt frekara starf byggir á en þær eru ekki endastöðin heldur upphafið. Eftir
er glíman við bókmenntirnar sjálfar, þann heim sem þær endurspegla og þá
sérkennilegu blöndu innlendrar frásagnarhefðar, frumlegrar sköpunar og
erlendra menningaráhrifa sem er aðalsmerki þeirra. Þessum þáttum þurfa
fræðimenn að sinna ekki síður en öðrum og sækja sér óhikað innblástur til ný-
mæla í öðrum fræðigreinum."
Hvort hér kunni eitthvað að vera ofsagt eða vansagt verður látið ósagt í
þessu spjalli. Á hinn bóginn varð aðsókn að ráðstefnunni góð, og vakti hún
nokkra athygli í fjölmiðlum. Ráðstefnugestir voru ekki einungis úr röðum
lærðra eða innvígðra fræðimanna, heldur voru almennir lesendur fornbók-
menntanna áberandi. Dagskrárstjórn Ríkisútvarpsins fór þess og á leit við
undirritaða að gerðir yrðu útvarpsþættir um efni fyrirlestranna. Voru fyrir-
lesarar fengnir til samstarfs og tólf þættir fluttir á útmánuðum 1990.
í boðsbréfinu var ennfremur drepið á fræðilega umræðu um íslenskar
fornbókmenntir, sem fer víða fram í háskólum, á ráðstefnum og í bókum, en
síðast og ekki síst í tímaritum. Til þess var tekið að í rauninni er ekkert tímarit
gefið út hérlendis sem einvörðungu fæst við íslenskar bókmenntir fyrri alda.
Hér eru gefin út nokkur tímarit sem snerta þetta svið, en þau eru ýmist almenns
eðlis og fjalla vítt og breitt um menningarmál eða þau sérhæfa sig að mestu í
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
3