Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 11
Hugleiðing um textafræði og miðaldarannsóknir
JAKOB BENEDIKTSSON
Ekki skal getum að því leitt hvort mér sé ætlað að vera einhvers konar ad-
vocatus diaboli hér á þessari ráðstefnu bókmenntafræðinga, þar sem ég er ekki
einn úr þeirra hópi, heldur alinn upp í gamaldags fílólógíu, og kem því að efni
ráðstefnunnar úr annarri átt en flestir þeir sem hér eiga eftir að flytja erindi. Þar
að auki er ég helst til fákunnandi í hinum nýrri kenningum bókmenntafræði og
skal þessvegna leiða hjá mér að ræða um þær, enda verður það sem ég segi hér
aðeins ábyrgðarlaust spjall. Ég er svo gamall að ég er alinn upp í sömu trú á
íslenskar fornsögur og vinur minn Arngrímur lærði - sem ég hafði þá reyndar
ekki hugmynd um að hefði verið til - en síðan hef ég haft nokkra nasasjón af
ýmsum kenningum um íslenskar fornbókmenntir. Mörgum þessara kenninga
gleypti ég við eins og fleiri, en komst síðar að því að þær voru engan veginn eins
öruggar og forvígismenn þeirra töldu, aðrar og nýrri leystu þær af hólmi,
almennt álit fræðimanna sveiflaðist með nokkrum hætti fram og aftur, eins og
sjá má til dæmis í deilum manna um svonefnda sagnfestu og bókfestu. Þetta
hefur alið upp í mér vissar efasemdir um nýjar kenningar, framar öllu ef þær
eiga að vera altækar, einhvers konar kerfi sem setji fram allsherjar skýringar.
Nú mega menn ekki skilja orð mín svo að ég sé á móti nýjum kenningum
yfirleitt, heldur hinu þegar þær þykjast hafa fundið sannleikann allan. Nýjar
kenningar hafa þann kost að velta upp nýjum sjónarmiðum, nýjum athug-
unum, sem margoft hafa skýrt vissa þætti, dregið fram ný vandamál sem fyrri
mönnum sást yfir og með því þokað rannsóknum áleiðis. Þess vegna er það
fagnaðarefni að ungir bókmenntafræðingar, sem kynnst hafa nýjum straumum
í þessum fræðum, koma hér saman til þess að ræða áhugamál sín frá ýmsum
sjónarhornum, en þó framar öllu frá bókmenntalegu sjónarmiði.
Islenskir fræðimenn hafa á undanförnum árum verið eftirbátar erlendra
fræðimanna við rannsóknir á bókmenntaarfi okkar, eins og segir í boðsbréfi til
þessarar ráðstefnu. Þetta á sér margar orsakir, ekki aðeins þá að handritafræði og
textafræði hafi setið hér í fyrirrúmi, heldur líka að íslenskir fræðimenn hafa á
ýmsan hátt verið lakar í stakk búnir en útlendingar til þvílíkra rannsókna. Hér
hefur verið ógnarlegur skortur á bókum í miðaldafræðum og er enn, þó að ögn
hafi rofað til á síðustu árum, kunnátta í latínu hefur farið þverrandi, en hún er
SKÁLDSKAPARMÁL 1 (1990)
9