Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 13
Hugleiðing um textafræði og miðaldarannsóknir
11
dæmi eins og Egils sögu, þar sem texti Möðruvallabókar er greinilega fágaðri og
knappari en í elsta brotinu af sögunni, sem er líklega um það bil 100 árum eldra,
og önnur stytt gerð er til í svonefndri Ketilsbók. Annað dæmi er Njála sem er
varðveitt í fleiri handritum en nokkur önnur Islendingasaga, en af henni eru til
fleiri gerðir en ein og engin ein þeirra hefur enn verið gefin út óbreytt. Enn má
nefna Fóstbræðra sögu, sem er stytt og breytt að stíl í Hauksbók, en í Flateyjar-
bók eru nokkrir þættir sem ekki eru í öðrum gerðum sögunnar. Um þá höfum
við Jónas Kristjánsson orðið ósammála;1 hann telur þá síðara innskot, en mér
virðist þeir vera upphaflegir. Báðar skoðanir hafa átt sér eldri fulltrúa. Frá
textafræðilegu sjónarmiði verður varla úr þeirri deilu skorið til hlítar, en bók-
menntafræðilega er hún áhugaverð, því að séu þessir þættir upphaflegir, rennir
það stoðum undir nokkuð aðra skoðun á tilgangi höfundar með lýsingunni á
Þorgeiri Hávarssyni en almennust hefur verið.2
Miklu fleiri dæmi mætti nefna, sem sýna svo miklar breytingar skrifara að
réttmætt er að tala um fleiri gerðir sögu. Breytingarnar taka að vísu ekki að
jafnaði til efnisþráðar, enda þótt fyrir komi bæði úrfellingar og innskot. Mest
ber á ýmsum stílfræðilegum breytingum, þar sem ólíkur smekkur skrifara eða
ritstjóra í samsteypuverkum virðist hafa ráðið ferðinni.
Af þessu leiðir að leitin að upphaflegum texta íslenskra miðaldarita er engan
veginn einfalt mál, eða kannski er réttara að segja að hún sé oftast vonlítil. Með
textafræðilegum rökum má a. m. k. alloft komast nærri því sem ætla má að sé
frumhandrit varðveittra handrita, en alls óvíst er oftast að það sé frumtextinn
óbreyttur. Það er meira að segja engan veginn óhugsandi að sá sem fyrstur setti
saman sögu hafi skrifað eða látið skrifa fleiri handrit en eitt sem hafi ekki verið
með öllu samhljóða og þannig orðið upphafshandrit mismunandi handrita-
flokka. Við megum ekki gleyma því að ekki var hægt að gera verulegar breyt-
ingar á texta sem kominn var á skinnbók, en við vitum ekki hvernig íslenskir
miðaldahöfundar unnu. Gerðu þeir uppkast, e. t. v. á lausum skinnblöðum, sem
þeir hreinrituðu síðan eða lásu atvinnuskrifara fyrir? Um þetta verður seint
fengin nokkur örugg vitneskja, en heldur virðist ólíklegt t. d. að höfðingi eins
og Snorri Sturluson hafi setið við og hreinskrifað rit sín með eigin hendi.
Hitt er svo annað mál að þegar líður á 13. öldina og bókakostur hefur vaxið
og fleiri rit verið til samanburðar, þá hafi bókmenntalega sinnaðir skrifarar þróað
með sér aðrar hugmyndir um frásagnarstíl sem hafi komið þeim til að fága
orðfæri þeirra texta sem þeir skrifuðu upp. Þá gátu komið upp knappari gerðir
af sögum eins og þeim sem ég nefndi og öðrum fleiri. Aftur á moti gátu skrifarar
á síðari tímum e. t. v. komist yfir gömul handrit og skrifað þau upp án þess að
gera verulegar stílbreytingar, þannig að yngri handrit geta staðið nær upphaflegri
gerð en þau sem skrifuð voru í lok 13. aldar og fram á þá 14. af mönnum sem
höfðu þann metnað að endurbæta textann.
Nú ber svo einkennilega til að einmitt í lok 13. aldar verður augljós allt
önnur stefna í stíl íslenskra miðaldarita, en þá framar öllu í kirkjulegum ritum.
Það er skrúðstíllinn svonefndi, uppbelgdur stíll með margs konar orðskrúði og