Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 15
Hugleiðing um textafræði og miðaldarannsóknir
13
áhrifum, en bætti við: „Sjálfstæði þeirra er ekki kunnáttulaus villimennska. Séu
þær í litlu samræmi við venjulegan latneskan lærdómsblæ, þá er það af því að
höfundar þeirra vildu hafa þær svo, en ekki af því að þá skorti venjulega
bókaramennt".4 Þetta hefur mér alltaf fundist skynsamleg athugun. En þá
verður vitaskuld að spyrja: Af hverju vildu þeir hafa sögurnar svona? Annar
lærður Breti, Gabriel Turville-Petre, svaraði því að nokkru með því að halda því
fram að lærðar bókmenntaþýðingar 12. aldar hafi hjálpað Islendingum til að
móta frásagnarstíl sinn, að þær hafi ekki kennt þeim hvað þeir ættu að hugsa
eða segja, en sýnt þeim hvernig ætti að segja það.5
Fleiri hafa látið uppi svipaðar skoðanir og jafnvel bent á vissar samsvaranir
í stíl við Islendingasögur. En er þá ekki líka hægt að snúa dæminu við og athuga
hvort vissar samsvaranir í þýddu ritunum við sögustílinn eigi sér sameiginlegan
uppruna í munnlegum frásagnarstíl? Til þess liggur beinast við að athuga hvort
atriði sem hér er um að ræða eigi sér fyrirmyndir í latnesku frumtextunum eða
hvort þarna sé að ræða um breytingar þýðandans.
Enn sem komið er hefur þessu atriði verið allt of lítill gaumur gefinn.
Dietrich Hofmann hefur þó komið auga á þetta rannsóknarefni, en hann hefur
lengi þann steininn klappað að draga fram hlut munnlegrar frásagnarlistar í
sköpun íslendingasagna. Hann hefur bent á nokkur atriði þar sem stílsmáti
þýðinganna ber merki munnlegrar frásagnarlistar, án þess að latneski frum-
textinn gefi neitt tilefni til þess.6 Eg skal aðeins nefna tvö dæmi, bæði alkunn
úr íslendingasögum: Annað er að skipt sé um tíð sagnorða í samfelldri frásögn,
án sérstaks tilefnis, þ. e. að á víxl sé notuð svonefnd söguleg nútíð og venjuleg
þátíð. Hitt er að málsgrein hefjist á óbeinni ræðu en breytist síðan í beina
ræðu, án þess að skotið sé inn nokkru inngangsorði beinnar ræðu. Eins og
kunnugt er kemur þetta iðulega fyrir í sögustíl, að sagt er frá ummælum
einhverrar sögupersónu á þennan hátt, byrjað í óbeinni ræðu, en síðan for-
málalaust haldið áfram í beinni ræðu. Um hvorttveggja þetta hefur Hofmann
fundið dæmi í íslensku hómilíubókinni, þar sem ekkert líkt kom fyrir í
latneska frumtextanum.
Nú eru dæmi Hofmanns ekki mörg, enda ekki ýkja margt um frásagnartexta
í hómilíubókinni þar sem slíkra dæma væri að vænta, svo að mér datt í hug að
líta í aðra þýðingu úr latínu sem líklegri er til fanga um þessi atriði, en það er
Rómverja saga. Þess verður þó fyrst að geta að einmitt Hofmann hefur nýlega
fært að því góð rök að þýðingin á Rómverja sögu sé eldri en talið hefur verið,
a. m. k. eldri en Veraldar saga, það er að segja naumast yngri en frá því um 1180,
þannig að hún yrði þá í hópi elstu þýðinga.7 Rétt er að taka það fram að
þýðingin á ritum Sallústs í Rómverja sögu er tiltölulega nákvæm, svo að víða
má heita að hún sé orðrétt.
Frá því er skemmst að segja að um bæði þessi atriði sem ég nefndi eru nóg
dæmi í Rómverja sögu. I þeim kafla sem varðveittur er úr þýðingunni á Bellum
Jugurthinum hef ég fundið um tuttugu dæmi um breytingu á óbeinni ræðu í
beina, en á öllum þeim stöðum hefur latneski textinn eingöngu óbeina ræðu,