Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 16
14
Jakob Benediktsson
enda er sú aðferð tíðust hjá Sallúst, nema þegar hann tilfærir eiginlegar ræður.
Auk þessara dæma er stundum skotið inn inngangsorðum beinnar ræðu („sagði
hann“ eða e-ð þvílíkt) í upphafi beinu ræðunnar, en það á sér ekki heldur
fyrirmynd í latneska textanum.
Sama er að segja um skipti á tíðum sagnorða. Það fyrirbæri kemur alloft fyrir
í Rómverja sögu, án beinnar fyrirmyndar í latneska textanum. Þó má geta þess
að Sallúst byrjar stundum setningu í sögulegri nútíð og heldur síðan áfram með
sögn eða sögnum í nafnhætti, svonefndum infinitivus historicus, sem svarar til
sögulegrar nútíðar. I þeim dæmum byrjar þýðingin venjulega í nútíð en heldur
áfram í þátíð.
Hverjar ályktanir er nú hægt að draga af þessu? Hofmann er ekki í vafa um
að þessi stíleinkenni séu sótt í munnlega frásagnarhefð. Víst er að minnsta kosti
að þau eru ekki sótt til latnesku frumtextanna, og þá er ekki í mörg önnur hús
að venda. Vitaskuld er margt í stíl þýddu textanna sem rekja má til latnesku
fyrirmyndanna, en þeim mun meiri ástæða er til að staldra við þau atriði sem
enga fyrirmynd eiga sér í latínunni. Og raunar er ekki víst nema að frekari
rannsóknir á stíl elstu þýðinganna og vandlegur samanburður við latnesku
frumtextana, þar sem þeir eru tiltækir, gætu dregið fram fleiri atriði en þau sem
hér hafa verið nefnd. Hofmann hefur þegar bent á nokkur slík, en frekari
athugana væri þörf. Á mörgum hinna elstu þýðinga er furðu lítill latínubragur,
svipurinn gjörólíkur þeim sem síðari þýðingar og samsteypur helgisagna bera
með sér. Hér er ennþá mikið verk óunnið í stílrannsóknum á íslenskum mið-
aldatextum. Enda þótt slíkar rannsóknir geti ef til vill ekki leyst úr gamla
þrætumálinu um sagnfestu eða bókfestu, ættu þær að geta varpað nokkru ljósi
á þróun íslensks frásagnarstíls á 12. og 13. öld.
Við það má bæta að með tímasetningu Hofmanns á Rómverja sögu aukast
líkurnar á því að sú saga eigi eftir að skipa merkilegri sess í íslenskri bók-
menntasögu en hún hefur gert. Hugsanlegt er að hún hafi haft drýgri áhrif á
ritun elstu konungasagna en áður var talið líklegt. Á það má t. d. benda að í
henni eru tilfærðar langar ræður, samtöl og tilsvör, sem vel máttu verða síðari
mönnum fordæmi. Enn má nefna að Hermann Pálsson hefur bent á atriði í
Rómverja sögu, sem verið gæti fyrirmynd að smákafla í Sverris sögu.8
Hér er margvíslegra athugana þörf, ef við ætlum að komast eitthvað nær því
að svara spurningunni sem ég sló fram áðan, hvers vegna höfundar Islendinga-
sagna vildu hafa þær svo.
Þær sundurlausu hugleiðingar sem ég hef haft uppi í þessu spjalli eru hvorki
nýjar kenningar né nýstárleg fræði. Tilgangur minn var framar öllu sá að benda
á í allri hæversku að varhugavert sé að setja upp einhvers konar skörp skil milli
textafræði og bókmenntafræði þegar fjallað er um íslenskar miðaldabók-
menntir. Ymis rannsóknarefni eru þessum fræðigreinum sameiginleg að
verulegu leyti, svo sem stílrannsóknir, leitin að fyrirmyndum og könnun
tengsla við önnur rit.
Bókmenntafræðingar og textafræðingar ættu þessvegna að gera meira að því