Skáldskaparmál - 01.01.1990, Side 17
Hugleióing um textafræði og miðaldarannsóknir
15
að skiptast á skoðunum, reyna að mætast á þeim sviðum sem þeim eru sam-
eiginleg, tefla fram kenningum sínum og skýringum og sjá til hvort það mætti
ekki verða hvorumtveggja til nokkurs lærdóms. Að minnsta kosti ætti það að
geta útrýmt vissum fordómum hjá báðum aðiljum. Textafræðingar skrifa af illri
nauðsyn langa og strembna formála fyrir undirstöðuútgáfum, en í þeim felst
vitaskuld rökstudd greinargerð fyrir þeim texta sem þeir setja á prent. Hitt er
aftur með ýmsum hætti að hve miklu leyti þeir gera grein fyrir efni ritsins og
þeim vandamálum sem tengd eru tilurð þess og samsetningu. Þó má telja
eðlilegt að útgefandi sem hefur e. t. v. legið árum saman yfir útgáfu texta hafi
gert sér grein fyrir mörgum atriðum af því tagi og búi yfir þekkingu á textanum
sem ekki er á annarra færi. En slík viska útgefanda kemst ekki alltaf til skila í
formála; ef til vill finnst honum formálinn vera orðinn nógu langur eða hann
vill ekki ryðjast inn á verksvið bókmenntafræðinga. Hinsvegar er vafalaust að
því fengur að útgefandi lýsi í stuttu máli þeim vandamálum textans sem hann
hefur komið auga á, hvort sem hann býður upp á lausn á þeim eða ekki. Þetta
hafa ýmsir útgefendur gert lesendum til mikils hagræðis, hvort sem þeir eru
útgefanda sammála eða ekki.
Með þessu á ég ekki við að textafræðingar eða útgefendur texta eigi að troða
sér inn í hlutverk bókmenntafræðinga, heldur að þeir mættu stundum búa
textana betur í hendur þeim með því að þegja ekki yfir neinni þeirri vitneskju
sem þeir kunna að hafa um efni textans, jafnvel þótt það sé aðeins í knöppu
yfirliti.
Á hinn bóginn hlýtur sú skylda að hvíla á bókmenntafræðingum að taka
fullt tillit til þeirra textafræðilegu vandamála sem tengd eru ákveðnu ritverki og
geta skipt einhverju um skilning á því, hvort heldur þar er um að ræða
stílfræðileg atriði eða stöðu ritsins í þróunarsögu þeirrar bókmenntagreinar sem
við er átt.
Hefðu svo hvorirtveggja nokkuð að iðja.
Tilvísanir
1 Jakob Benediktsson, „Some Episodes in the Flateyjarbók Text of Fóstbræðra saga“. Sagna-
skemmtun. Studies in honourof Hermann Pálsson. Wien 1986, 153-58; Jónas Kristjánsson,
„Þorgeirsþættir í Flateyjarbók". Saga og kirkja. Afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar.
Reykjavík 1988, 69-72.
2 Sbr. Helga Kress, „Bróklindi Falgeirs". Skímir 1987, 271-86.
3 Sjá t.d. Dietrich Hofmann, „Die Einstellung der islándischen Saga-Verfasser und ihrer
Vorgánger zur miindlichen Tradition". Oral Tradition, Literary Tradition. A Symposium.
Odense 1979, 23 (=Gesammelte Schriften 1, 1988, 335).
4 W. P. Ker, The Dark Ages (1904), New York 1958, 200.
5 G. Turville-Petre, Origins of Icelandic Literature. Oxford 1953, 142.