Skáldskaparmál - 01.01.1990, Page 28
26
Gísli Sigurðsson
Að lokum og kannski ekki síst þá er illmögulegt að skýra bókmenntalega
sérstöðu íslands á miðöldum nema með því að hér hafi blómgast sterk munnleg
frásagnarlist. Séríslenskar aðstæður á 12. og 13. öld og mikill latínulærdómur
duga ekki til að gera grein fyrir því af hverju við eignuðumst Islendinga sögur.
Sögurnar eru óskýranlegt fyrirbæri nema með innlendri frásagnarhefð að baki.
Og til að skýra af hverju munnleg orðlist var á allt öðru og hærra stigi hér á
landi en í Noregi er hægt að benda á þá gelísku menningarstrauma sem gátu
borist til íslands á landnámsöld og orðið til þess að hér skapaðist miklu öflugri
sagna- og kvæðamenning en þekktist á hinum Norðurlöndunum.9 Þannig
ræðst viðhorf okkar til gelískra áhrifa í íslenskum fornbókmenntum af því
hvaða afstöðu við tökum til munnmæla að baki íslendinga sögum. Með því að
gera ráð fyrir munnlegum bakgrunni eru gelísku áhrifin fær skýringarleið til að
gera grein fyrir sérstöðu íslands. Ef við fylgjum hins vegar íslenska skólanum
og eltum rittengslin fyrst er ekkert rúm fyrir gelísk áhrif á íslenska sagnahefð -
enda sáu hvorki Jón Helgason né Sigurður Nordal ástæðu til að skipta sér af
þeim.
Við verðum alltaf að svara spurningunni um uppruna Islendinga sagna því að
svarið við þeirri spurningu mótar allar aðrar rannsóknir á þeim. Það er þó rétt
að undirstrika að þó að gert sé ráð fyrir sterkri munnlegri sagnahefð þá er mikið
starf óunnið við að koma sundurleitum sögum úr þeirri hefð skipulega saman
á skinn. Og þar kemur höfundurinn til og sá lærdómur sem hann gat sótt sér í
latínurit á 12. og 13. öld. Munnlegur uppruni dregur m.ö.o. ekki úr mikilvægi
lærdómsins. Islendingasögur eru ritaðar bókmenntir undir áhrifum latínu-
mennta sem útilokar ekki, heldur undirstrikar innlendu hefðina. Lærdómurinn
lagði til tæknibrögð sem voru nauðsynleg til að þessi menningararfur fengi
notið sín í rituðu máli. Og þó að við höfum nú um stund einblínt á sögurnar
sem hluta af munnlegri hefð þá má ekki gleymast að hver saga er jafnframt
sjálfstætt listaverk höfundar sem valdi sér einmitt þetta söguefni og setti það
fram eins og hann gerði af því að hann vildi að öllum líkindum segja samtíð
sinni sögu og túlka mannlífið í kringum sig fyrir lesendum sínum.
Tilvísanir
1 ,,‘íslenski skólinn’ og Hrafnkels saga.“ Tímarit Máls og menningar 39 (1978): 317-324.
2 í MedievalNarrative, ritstj. Hans Bekker-Nielsen o. fl., Óðinsvéum 1979: 120-129.
3 Hrafnkatla, Reykjavík 1940.
4 The Prohlem of Icelandic Saga Origins, New Haven and London, Yale University Press,
1964.
5 „The long Prose Form.“ Arkiv för nordisk filologi, 101 (1986); 10-39
6 Cornell University Press, Ithaca og London, 1982.